Hver er Svarti-Pétur?

Tilkynnt var um að stjórnarmyndunarviðræðum yrði hætt síðdegis í gær.
Tilkynnt var um að stjórnarmyndunarviðræðum yrði hætt síðdegis í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Þingmönnum er tíðrætt um Svarta-Pétur eftir að slitnaði upp úr ríkisstjórnarviðræðum fimm flokka í gær. Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, spyr hvort hreinskilni Viðreisnar geri flokkinn að Svarta-Pétri og Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, tekur í svipaðan streng.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, tilkynnti síðdegis í gær að slitnað hafi upp úr viðræðum flokkanna fimm og hafa heyrst ýmsar skýringar á því hvers vegna það gerist.

Hanna Katrín Friðriksson.
Hanna Katrín Friðriksson.

Hanna Katrín skrifar á Facebook í gærkvöldi að því miður hafi viðræðurnar ekki gengið upp því hugmyndin var góð og tilraunin heiðarleg. „Ég upplifði viðræðurnar bæði gagnlegar og góðar, þó að mikið hafi borið á milli í lykilmálum.

Það var komið í ljós að mjög erfitt yrði að ná fram viðunandi breytingum í mikilvægum málum okkar á borð við landbúnaðar- og sjávarútvegsmál. Þá stóð í okkur að sú verulega aukning ríkisfjármála sem var uppi á borðinu vegna ýmissa brýnna verkefna, yrði fjármögnuð með stórfelldum skattahækkunum, enda höfðum við lagt til aðrar lausnir.

Þessar efasemdir lögðum við á borðið þegar kallað var eftir hreinskilni. Ef það gerir okkur að Svarta Pétri að þessu sinni, þá verður svo að vera,“ skrifar Hanna Katrín Friðriksson.

Björt Ólafsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, skipar fyrsta sæti listans í …
Björt Ólafsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, skipar fyrsta sæti listans í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Klukkustund síðar skrifar Björt Ólafsdóttir á Facebook um Svarta-Pétur og ríkisstjórnarviðræðurnar.

„Það er ansi mikið verið að berjast um hver á að vera Svarti Péturinn í þessu síðasta spili. Ég vil bara segja, í fullri einlægni. Hugmyndin var mjög góð.

Ég var sjálf á tíma ekki alveg viss hvort að vinstri vængurinn sannarlega vildi þetta. En trúði og vonaði. Og vildi allra helst styðja trausta konu til góðra verka.

Það er vont að að tókst ekki. Svo má fólk bara kenna þeim um sem það vill. Það má hinsvegar gera ráð fyrir því að margir leikir hafi verið spilaðir á sama tíma.

Æ hvað þessi gamla afturhaldspólitík er leiðinleg. Og bara vond fyrir allt og allt,“ skrifar Björt Ólafsdóttir.

Þingflokkur VG sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu í gær:

„Undanfarna daga hafa Vinstri græn, Viðreisn, Björt framtíð, Píratar og Samfylkingin átt í formlegum viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Að þeim hafa komið komið yfir þrjátíu manns fyrir hönd flokkanna sem lagt hafa fram mikla vinnu við að skapa grundvöll fyrir samstarfi þeirra í ríkisstjórn. Góður andi var í viðræðunum og fyrir lá að víða var ágætur samhljómur um málefni.

Frá upphafi var þó ljóst að töluvert langt var á milli flokkanna í ýmsum málefnum, ekki síst hvað varðar fjármögnun nauðsynlegrar uppbyggingar í heilbrigðisþjónustu og menntamálum. Í dag kom í ljós að ekki voru allir flokkarnir með sannfæringu fyrir því að halda viðræðunum áfram og það var því niðurstaða Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna að viðræðum yrði ekki fram haldið."

Frétt RÚV 

Katrín er enn með umboðið en hún greindi frá því við fréttamenn í gær að hún ætlaði að sofa á þessu en framhaldið kemur væntanlega í ljós fljótlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert