Hefur skort á raunsæið

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, segist hafa fulla trú á því …
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, segist hafa fulla trú á því að kjörnir fulltrúar nái að mynda stjórn. mbl.is/Styrmir Kári

„Það eru allir að ræða við alla,“ segir Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er mbl.is spurði hann um óformlegar stjórnarmyndunarviðræður þingflokkanna þessa helgina. Sjálfur kveðst hann hafa talað við fjölda fólks og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður flokksins tekur í sama streng og segir menn eðlilega tala saman og velta vöngum.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, gaf það út í gær að hann myndi ekki veita neinum einum formanni stjórnarmyndunarumboð að sinni, heldur hvatti hann menn til að ræða saman sín á milli. „Ég hef talað við fullt af fólki, eðlilega,“ sagði Kristján. „Það er ágætt hljóð í fólki, en gætir smá óþreyju og það á ekki bara við í pólitíkinni,“ bætir hann við og segir himin og jörð ekkert við það að farast.

Guðlaugur Þór Þórðarson segir möguleika á stjórnarmyndunarumræðum vera fyrst og fremst á hendi formanna flokkanna og sjálfur treysti hann formanninum Bjarna Benediktssyni til að finna bestu mögulegu lausn á málinu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Brynjar Níelsson, þingmaður flokksins segist ekki ræða málið við nokkurn mann. „Hvorki eigin þingmenn né aðra. Ég ætla að leyfa öðrum að sjá um þetta,“ segir hann.

Augljósir gallar við alla kosti

Guðlaugur Þór segir forsendurnar vera tvær. „Annars vegar hvernig við getum náð málefnum okkar best fram og hvar samleiðin er mest og síðan er hitt að ríkisstjórnarmeirihlutinn verði samstæður, starfhæfur og þoli þá ágjöf sem verður alltaf þegar ríkisstjórn starfar.“

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokksmaður Sjálfstæðisflokksins, treystir sér til að vinna …
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokksmaður Sjálfstæðisflokksins, treystir sér til að vinna með öllum, en segir að nálgun Bjartrar framtíðar hafi oft verið sér að skapi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staðan sé þekkt og það séu augljósir gallar við alla kosti, en þetta sé það sem kjósendur hafi valið. „Þetta snýr því að stærstum hluta að því hvernig formenn flokkanna ná saman,“ segir hann.

„Það er alveg ljóst að þrátt fyrir heitstrengingar þar um þá munu menn ekki ná öllu sínu fram og mér hefur kannski aðeins fundist vanta raunsæi á þessa stöðu. Ég held þó að eftir þessar þreifingar þá ætti öllum að vera staðan ljós.“

Spurður hvernig stjórnarsamstarf honum myndi hugnast svarar Guðlaugur Þór því til að hann hafi átt mjög gott samstarf við fólk úr flestum flokkum og treysti sé til að vinna með öllum. „Ég hef til að mynda átt mjög gott samstarf við þingmenn Framsóknarflokksins í þessum þingmeirihluta og á sama hátt þá hefur nálgun Bjartrar framtíðar alla jafna verið mér að skapi.“ Hann telji því að það ætti að vera gott að starfa með þeim hópi.

Samstarf flokkanna í Kópavogi, Akranesi og Hafnafirði sýni líka að á þeim vettvangi geti Sjálfstæðismenn og Björt framtíð unnið vel saman. „En það sama má segja um hina flokkana, því að að því gefnu að fólk komi með rétta hugarfarið inn í samstarfið þá er alltaf hægt að ná niðurstöðu.“

Flóknara að eiga við þá sem standa fjær ef eitthvað kemur upp á

Brynjar Níelsson tekur í sama streng og segir alla geta unnið saman ef þeir ætla sér það. „ Eina vesenið er, að það getur verið flóknara að eiga við þá sem eru fjærstir okkur í pólitík ef eitthvað kemur upp á á kjörtímabilinu eins og gefur að skilja.“ Þannig telji hann að það sé til að mynda  ekkert endilega flóknara að gera stjórnarmyndunarsáttmála við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð en aðra flokka.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir ekkert endilega flóknara að gera …
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir ekkert endilega flóknara að gera stjórnarmyndunarsáttmála við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð en aðra flokka. mbl.is/Eggert

„Þetta snýst mikið um persónur og hvernig menn geta unnið saman og hvers konar týpur eru í forsvari hverju sinni,“ segir hann. „Sjálfur vil ég auðvitað hafa ríkisstjórn sem horfir mest til minna sjónarmiða, sem eru nú ekki mjög langt til vinstri.“

Kristján Þór kveðst hafa enga trú á öðru en að kjörnir fulltrúar finni lausn á málinu.  „Það verður svo bara að koma í ljós hvernig gengur og hvernig forystumenn flokkanna vinna úr sínum samtölum. Menn ganga ekkert að neinu gefnu í þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert