Píratar hefja viðræður á mánudag

Smári McCarthy og Birgitta Jónsdóttir, þingmenn Pírata.
Smári McCarthy og Birgitta Jónsdóttir, þingmenn Pírata. mbl.is/Árni Sæberg

Verkferlar og málefni voru meðal þess sem þingflokkur Pírata ræddi á fundi sínum í dag en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fól Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanni Pírata, umboð til stjórnarmyndunar í gær.

Frétt mbl.is: Píratar funda í dag

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir fundinn að mestu leyti hafa snúist um að undirbúa þá vinnu sem fram muni fara á næstu dögum. „Við erum aðallega að fara yfir verkferla og finna út úr því hvernig við viljum haga hlutunum.“

Smári segir engar formlegar viðræður við aðra flokka hefjast fyrr en á mánudag en útilokar þó ekki að óformlegar viðræður muni eiga sér stað á morgun. „Við erum að reyna að taka því rólega og undirbúa hlutina vel. Við lítum þannig á að það liggi ekkert á í augnablikinu. Við þurfum bara að vanda vinnuna og passa að gera engin mistök.“

Eins og fram hefur komið munu fulltrúar Pírata, Vinstri grænna, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar taka upp þráðinn að nýju en Birgitta sagðist í samtali við mbl.is fyrr í dag vera vongóð um myndun fimm flokka ríkisstjórnar.

Að sögn Smára mun undirbúningur halda áfram á morgun enda þurfi enn að leysa úr ýmsum verkefnum sem fylgi því að hafa stjórnarmyndunarumboðið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert