Finna hvar sársaukamörkin liggja

Katrín Jakobsdóttir og Benedikt Jóhannesson.
Katrín Jakobsdóttir og Benedikt Jóhannesson. mbl.is/Eggert

„Í svona viðræðum þarf hver að finna hvar sársaukamörkin liggja. Það getur verið að við séum komin út í horn í íslenskum stjórnmálum en ekki hjá íslensku þjóðinni. Í kosningunum var ákall um breytingar í heilbrigðis- og velferðarmálum og það er eitt af forgangsmálum okkar.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í morgunþætti Rásar 2 í morgun, spurð hvort flokkurinn væri kominn út í horn í íslenskum stjórnmálum.  

Í morgunþættinum var rætt um formlegar eða óformlegar stjórnarmyndunarumræður fimm flokka sem fóru út um þúfur í gær. Í máli Katrínar kom fram að of mikið bar á milli flokkanna eins og komið hefur fram.

Katrín þvertók fyrir að klofningur væri innan VG, spurð hvort flokksmenn á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu væru ekki sammála um áherslur í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Katrín benti á að flokksmenn VG væru aldrei feimnir við að tala hreint út. Í flokknum væru ólík sjónarmið og ekki óeðlilegt að ýmislegt kæmi upp þegar allir væru að hugsa í lausnum í þessari stöðu.

Spurð út í möguleika í núverandi stöðu benti hún meðal annars á þjóðstjórn eða minnihlutastjórn sem fýsilega kosti. Fyrst og fremst þyrfti fólk að vera opið fyrir að hugsa út fyrir kassann. 

Í þættinum var einnig rætt við Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar. Hann tók í sama streng og Katrín og sagði að flokkarnir hefðu ekki verið sammála um að finna tekjuöflunarmöguleika í ríkisfjármálunum. Hann sagði að til þess að möguleiki væri á að koma til móts við allar kröfur flokkanna meðal annars í heilbrigðismálum hefði meðal annars þurft að hækka fjármagnstekjuskatt eða virðisaukaskatt. 

Spurður um næstu skref sagði hann að eftir stífar samningaviðræður væri fólk lúið og þyrfti að hvíla sig og átta sig á stöðunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert