„Sigurður Ingi gæti fengið áheyrn“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, gæti snúið sér að Sigurði …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, gæti snúið sér að Sigurði Inga og Framsóknarflokknum. mbl.is/Ófeigur

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, telur líklegt að formenn stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi einbeiti sér að fjárlögunum áður en farið verði í frekari tilraunir til stjórnarmyndunar.

Aðspurður segist hann ekki viss hver eigi að taka af skarið og reyna að mynda nýja ríkisstjórn en síðan kosið var 29. október hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til þess:

„Ég held að það fari svolítið eftir því hvað menn hafi talað um án þess að það sé opið og formlegt. Eitthvað heyrir maður að þeir sem byrjuðu, Björt framtíð, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur, séu að reyna að fara yfir málin aftur. Miðað við það er ekki ólíklegt að það heyrist fyrst frá Bjarna,“ segir Grétar í samtali við mbl.is.

Hann bendir einnig á að ef sá möguleiki sé ekki í spilunum gæti forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, beint sjónum sínum að eina flokknum sem ekki hefur tekið þátt í stjórnarmyndunarviðræðum hingað til; Framsóknarflokknum:

„Sigurður Ingi gæti fengið áheyrn og forsetinn gæti þurft að skoða hvort hann geti eitthvað gert,“ segir Grétar.

Hann telur hyggilegast að Guðni bíði aðeins og leyfi mönnum að klára fjárlagagerðina, eins og áður kom fram. Forsetinn verði þó að krefja menn svara strax á nýju ári:

„Ef ekkert verður farið að gerast þá verður hann að taka af skarið, hvað nákvæmlega sem það verður. Hann verður þá að krefja flokksformennina svara um hvort eitthvað sé í gangi. Hvort hann geri það rétt fyrir jól, milli jóla og nýárs, eða á nýju ári er ég ekki viss um,“ segir Grétar og bendir hlæjandi á að hann sé alls ekki að segja Guðna Th. fyrir verkum:

„Þetta er svona það sem ég gæti séð fyrir mér í þessu, ekki það að ég sé að segja honum fyrir verkum.

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert