Ætla að leysa deiluna um flugvöllinn

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Tekin verði ákvörðun um fyrirliggjandi kosti að undangengnu mati og innviðir innanlands- og sjúkraflugs þannig tryggðir til framtíðar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Kraftur verður lagður í uppbyggingu samgöngumála á öllum sviðum en álag á samgöngukerfið hefur aukist gríðarlega undanfarin ár, einkum vegna fjölgunar ferðamanna. Kemur fram að góðar samgöngur séu lykilatriði í bættum búsetuskilyrðum og fjölgunum atvinnutækifæra um allt land.

„Lögð verði áhersla á gott samstarf við sveitarfélög um allt land við uppbyggingu samgöngumannvirkja í samræmi við þarfir íbúa. Skoðaður verði möguleiki á samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um „Borgarlínu,“ kemur ennfremur fram í yfirlýsingunni.

Byggðamál

Stjórnin leggur áherslu á aðgerðir til að treysta byggð í landinu. Reglulega verður gerð úttekt á aðgengi landsmanna að þjónustu í samvinnu við sveitarfélögin, meðal annars með það fyrir augum að jafna kostnað íbúa við að njóta lögbundinnar grunnþjónustu. 

„Sérstök höfuðborgarstefna verði mótuð í samvinnu við Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög. Lýðræðisleg aðkoma íbúa verði styrkt meðal annars í gegnum sóknaráætlanir landshluta. Ljúka skal verkefninu „Ísland ljóstengt“ á kjörtímabilinu og leitast við að styrkja atvinnumöguleika á veikari svæðum með betri fjarskiptatengingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert