Markviss vinna gegn skattaundanskotum

Ótt­arr Proppé, Bjarni Bene­dikts­son og Bene­dikt Jó­hannes­son for­ystu­menn nýrr­ar rík­is­stjórn­ar.
Ótt­arr Proppé, Bjarni Bene­dikts­son og Bene­dikt Jó­hannes­son for­ystu­menn nýrr­ar rík­is­stjórn­ar. mbl.is/Eggert

Ekki er ákjósanlegt að ríkið fari með meirihlutaeign í viðskiptabönkum og er því, að mati nýrrar ríkisstjórnar, nauðsynlegt að minnka hlut ríkisins í varfærnum skrefum og mikilli sátt.

Kemur þetta fram í yfirlýsingu vegna stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar sem undirritaður var í Gerðubergi í Kópavogi í dag.

„Til langs tíma litið er ekki ákjósanlegt að ríkið fari með meirihlutaeign í viðskiptabönkum. Því er mikilvægt að minnka hlut ríkisins í varfærnum skrefum og víðtækri sátt. Áhersla verði lögð á opið og gagnsætt ferli þar sem gætt verður að sem mestri dreifingu eignarhalds. Í því augnamiði verði stefnt að því að almenningur geti fengið tiltekinn eignarhlut afhentan endurgjaldslaust,“ kemur fram í stefnuyfirlýsingunni.

Skattar

Efla á hlutverk skattkerfisins sem tekjuöflunartækis fyrir sameiginleg útgjöld og skatteftirlit eflt. Markvisst verður unnið gegn skattundanskotum, þar með talið í skattaskjólum en mögu­legt tekjutap hins op­in­bera, vegna van­tal­inna eigna, get­ur numið allt að 6,5 millj­örðum króna ár­lega, miðað við gild­andi tekju­skatts­lög. Þetta kom fram í niður­stöðum starfs­hóps fjár­málaráðuneyt­is­ins, um eign­ir Íslend­inga á af­l­ands­svæðum og tekjutap hins op­in­bera.

Frétt mbl.is: Allt að 810 milljarðar á aflandssvæðum

„Sanngjarnt skattaumhverfi dregur úr þörf fyrir ívilnanir og afslátt af opinberum gjöldum til að auka alþjóðlega samkeppnishæfni fyrirtækja. Hyggja þarf sérstaklega að skattaumhverfi einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja með einföldun og lækkun tryggingagjalds í huga. Koma þarf á samræmdu kerfi grænna skatta sem fela í sér eðlilegar álögur á mengandi starfsemi og skapa jafnframt hvata til samdráttar í losun og til annarra mótvægisaðgerða. Í því skyni verður áfram unnið að útfærslu skatta á ökutæki og eldsneyti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert