Sérstakt að vinna með gömlu félögunum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Eggert

Ráðherraembættið leggst vel í Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þingkonu Viðreisnar. Þorgerður verður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra en áður var hún menntamálaráðherra á árunum 2003 - 2009 fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

„Þetta leggst mjög vel í mig. Þetta eru magnaðar atvinnugreinar, sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn,“ sagði Þorgerður í samtali við mbl.is eftir að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, kynnti ráðherra Viðreisnar í Alþingishúsinu í kvöld.

„Það þarf að halda vel utan um þær en því er ekki að leyna að það er ákall um meiri sátt í sjávarútvegi og því ætlum við meðal annars að vinna að. Einnig ætlum við að vinna að landbúnaðarmálum í samræmi við það sem stendur meðal annars í stjórnarsáttmálanum; að stuðla að því að huga betur að hag bænda, neytenda og umhverfis,“ bætti Þorgerður við.

Breytt vinnubrögð á þingi

Eins og áður sagði hefur Þorgerður áður verið ráðherra en hún sat á þingi í 14 ár sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Henni líst vel á að snúa aftur á þingið eftir þriggja ára fjarveru.

Svona innst inni var ég búin að segja mér að það hefði lítið breyst, sérstaklega varðandi vinnubrögð, en mér finnst ákveðinn tónn hafa verið sleginn á fyrstu vikum þingsins í jákvæða átt. Mér finnst fólk tala meira saman og vera varfærnara. Fólk fer ekki strax í sleggjudómana í það minnsta innan þings og ég vona að það verði þannig áfram og fólk meti mál út frá málefnum en ekki persónum,“ sagði Þorgerður en verður ekkert undarlegt fyrir hana að sitja á þingi í öðrum flokki en Sjálfstæðisflokknum og vera með honum í ríkisstjórn?

„Það verður sérstakt en ég veit að gömlu félagarnir eru góðir félagar og góðir einstaklingar. Það sem skiptir máli er að fólk er með hjartað á réttum stað og metnað fyrir málefnunum. Ég horfi yfir Bjarta framtíð, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkinn og ég bind miklar vonir við að þetta verði farsælt samstarf. Þetta verður ekki auðvelt í ljósi lítils meirihluta en það verða gerðar miklar kröfur til okkar um ný og breytt vinnubrögð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert