Framboð hafa tæpan mánuð til að skila framboðslistum

Stjórnmálaflokkar hafa tæpan mánuð til að safna meðmælendum og manna …
Stjórnmálaflokkar hafa tæpan mánuð til að safna meðmælendum og manna lista sína. mbl.is/Brynjar Gauti

Forsætisráðherra hefur tilkynnt Alþingi að þing verði rofið hinn 28. október og að almennar kosningar fari fram sama dag. Það þýðir að tæpar sex vikur eru til stefnu, en samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis þarf að tilkynna skriflega öll framboð eigi síðar en kl. 12 á á hádegi 15 dögum fyrir kjördag. Framboðsfresturinn er því tæpur mánuður. 

Ljóst er að mikil vinna er fyrir höndum fyrir þá flokka sem vilja bjóða fram í komandi kosningum en framboðslista þarf að fylgja skrifleg yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi kjördæmi. Fjöldi meðmælenda skal vera margfeldi af þingsætatölu kjördæmisins og talnanna 30 að lágmarki og 40 að hámarki.  Berist yfirkjörstjórn meðmælendalisti þar sem sami kjósandi mælir með fleiri en einu framboði verður sá kjósandi ekki talinn meðmælandi neins þeirra. 

Í síðustu alþingiskosningum buðu alls 12 stjórnmálaflokkar fram en þó ekki í öllum kjördæmum. Að því gefnu að 12 stjórnmálaflokkar myndu bjóða fram í öllum kjördæmum í ár þyrfti að safna á bilinu 22.660 til 30.240 undirskrifum á meðmælendalista.

Flokkarnir þurfa ekki einungis að safna meðmælendum heldur þarf einnig að manna listana en samkvæmt lögunum skulu á framboðslista vera nöfn tvöfalt fleiri frambjóðenda en nemur þingsætum í kjördæminu, hvorki fleiri né færri. Sé miðað aftur við að 12 stjórnmálaflokkar bjóði fram í öllum kjördæmum yrðu 1.512 manns í framboði til Alþingis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert