Með jafnt fylgi

Kosið verður 28. október og er marka má skoðanakönnun miðla …
Kosið verður 28. október og er marka má skoðanakönnun miðla 365 þá eru Sjálfstæðisflokkurinn og VG jafnstórir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn eru með jafnt fylgi samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis sem gerð var í gær. Hvor flokkur fengi um 23 prósent.

Píratar eru þriðji stærsti flokkurinn samkvæmt könnuninni en 13,7 prósent svarenda segjast myndu kjósa flokkinn. Flokkur fólksins fengi tæp 11 prósent og Framsóknarflokkurinn fengi rúm 10 prósent. Þá fengi Björt framtíð rúm 7 prósent og Viðreisn og Samfylkingin yrðu jafnstór með rúm 5 prósent.

Yrðu þetta niðurstöðurnar fengju átta flokkar menn kjörna á þing. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn fengju 15 þingmenn hvor, Píratar fengju 9 þingmenn, Framsóknarflokkurinn og Flokkur fólksins fengju 7 menn hvor, Björt framtíð héldi í horfinu með fjóra þingmenn. Þá fengju Viðreisn og Samfylkingin þrjá menn hvort.

Þetta myndi þýða töluverðar breytingar á þingstyrk flokkanna. Í kosningunum í fyrra fékk Sjálfstæðisflokkurinn 21 þingmann, Vinstri græn og Píratar 10 þingmenn hvor, Framsóknarflokkurinn 8 þingmenn, Viðreisn 7, Björt framtíð 4 þingmenn og Samfylkingin 3.

Hringt var í 1.311 manns þar til náðist í 800 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki. Svarhlutfallið var því 61 prósent og tóku 64,4 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. 

Fréttablaðið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert