Ekkert tilefni til gönuhlaups Bjartrar framtíðar og Viðreisnar

Salurinn reis úr sætum er Sigríður Andersen tók til máls …
Salurinn reis úr sætum er Sigríður Andersen tók til máls á kosningafundi Sjálfstæðisflokksins í dag. mbl.is/Golli

„Við erum hér saman komin vegna gönuhlaups tveggja flokka, sem gáfu sig þó út fyrir bætt vinnubrögð.“ Þetta sagði Sigríður Andersen dómsmálaráðherra á fundi Sjálfstæðismanna á Hótel Nordica fyrr í dag. Fundurinn var haldinn undir yfirskriftinni Hefjum kosningabaráttuna.

Hún sagði alltaf hafa legið fyrir að ekkert tilefni væri fyrir Bjarta framtíð og Viðreisn að hlaupast á brott. Á fundi formanna allra flokka á dögunum var samþykkt að frumvarp Sigríðar um uppreist æru fái meðferð á núverandi þingi, og var það eina málið sem samstaða náðist um. „Það verður að vera Sjálfstæðisflokkurinn sem lýkur því máli því það hefur hvorki heyrst hóst né stuna frá öðrum flokkum um hvernig á að fara að því.“

Ekki fjölmiðla að velja úr hópi hælisleitenda

Sigríður gerði málefni hælisleitenda einnig að umtalsefni. Hún sagði góðan árangur hafa náðst í að hraða brottför fólks sem sækir hingað um hæli frá „öruggum ríkjum“ og misnoti sér þannig góðvild Íslendinga í garð þeirra sem eru í raunverulegri neyð.

„Því miður eru sumir þeirrar skoðunar að fjölmiðlar eigi að velja úr hópi hælisleitenda og stjórna því hverjir fá hér hæli,“ sagði Sigríður. Afstaða Sjálfstæðisflokksins væri þó skýr: Við afgreiðslu hælisumsókna verði að gæta jafnræðis og forgangsraða með tilliti til neyðar.

Hún þakkaði Sjálfstæðismönnum að lokum auðsýndan stuðning undanfarnar vikur og sagðist hafa fundið fyrir miklum hlýhug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert