Óskar Sigmundi velfarnaðar

Þórunn Egilsdóttir.
Þórunn Egilsdóttir.

„Það var niðurstaða fundarins að farið yrði í uppstillingu. Það var mikill meirihluti fundarmanna sem vildi það,“ segir Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, um fund kjördæmisráðs flokksins í Norðausturkjördæmi sem lauk fyrir stundu.

Tillögu stjórnar um að velja frambjóðendur flokksins með tvöföldu kjördæmisþingi var hafnað. Of knappur tími þótti til að halda tvöfalt kjördæmisþing og vísað var til þess að aðstæður hefðu breyst frá því samþykkt var að leggja tillöguna fram.

„Þetta var lýðræðisleg niðurstaða grasrótarinnar og mér líst vel á hana. Ég treysti grasrótinni algjörlega til að leggja leikreglurnar,“ segir Þórunn.

Hún hafði lýst yfir að hún sæktist eftir fyrsta sæti á lista flokksins í kjördæminu. Það var sæti fyrrum formannsins Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem fyrr í dag tilkynnti að hann væri hættur í Framsóknarflokknum og hygðist stofna nýtt stjórnmálaafl.

„Mér finnst leitt að hann kjósi að yfirgefa flokkinn en ég óska honum velfarnaðar,“ segir Þórunn um brotthvarf oddvitans.

Hlítir ákvörðun kjörstjórnar

Er þá ekki sjálfgefið að þú takir við sem oddviti í kjördæminu?

„Það er kjörstjórnarinnar að ákveða. Ég hlíti þeirra ákvörðun.“

Þær Líneik Anna Sævarsdóttir varaþingmaður og Bjarney Þórsdóttir, formaður ungra framsóknarmanna á Akureyri, tilkynntu um framboð sitt á fundinum að sögn Þórunnar.

„Það er ennþá tími til að bjóða sig fram. Það er mikið mannval hér í kjördæminu og fullt af efnilegu og frambærilegu fólki.“

Listi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi verður gerður opinber í byrjun næsta mánaðar og verður borinn upp á kjördæmisþingi hinn 7. október.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert