Vonbrigði að ná ekki að klára

Frá fundi velferðarnefndar Alþingis. Nichole Leigh Mosty, formaður nefndarinnar sést …
Frá fundi velferðarnefndar Alþingis. Nichole Leigh Mosty, formaður nefndarinnar sést hér til hægri. Til vinstri er Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki tókst að afgreiða frumvarp um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, svo nefnda NPA-þjónustu og frumvarp um félagsþjónustu sveitarfélaga úr velferðarnefnd fyrir þinglok. Þetta staðfestir Nichole Leigh Mosty, formaður velferðarnefndar, í samtali við mbl.is.

„Það eru mér mjög mikil vonbrigði að við náðum ekki að klára að lögfesta þetta, en ég tel að við höfum tryggt að það verði hægt að lögfesta frumvörpin fyrir áramót,“ segir Nichole.

Frumvörpin voru til umræðu á fundi velferðarnefndar í morgun og segir Nichole niðurstöðu fundarins hafa verið þá að enn sé ýmislegt sem þurfi að klára og koma í betri farveg áður en frumvörpin verði lögð fram. Nefndin hafi því á fundi sínum lagt mikla áherslu á að vinnu við gerð frumvarpanna verði haldið áfram og að samfella verði tryggð í þeirri þjónustu sem fatlaðir fái nú á grundvelli  bráðabirgðalaga. Segir Nichole nefndina leggja til að þau ákvæði verði felld inn í núverandi lög og verði svo aftur sett inn í nýju frumvörpin.

„Við lögðum áherslu á að það væri mikilvægt að ráðuneytið nýtti næstu vikur til samráðs við samtök notenda og sveitarfélaga með áherslu á að koma með raunhæfar lausnir sem sátt verði um. Enn fremur verði frumvörpin fullunnin og tilbúin í síðasta lagi í lok október næstkomandi,“ segir hún.

Velferðarnefnd verði skipuð um leið og þing komi saman

Þá hafi velferðarnefnd sent formönnum stjórnmálaflokkanna yfirlýsingu þar sem lagt er til að sérstakur samstarfshópur verði skipaður, sem fái það hlutverk að tryggja að áfram sé unnið að málinu þar til velferðarnefnd verður skipuð aftur af næsta þingi. 

„Við tókum líka skýra afstöðu til þess að málið væri sett í algjöran forgang og að næsta velferðarnefnd yrði mynduð um leið og þing kæmi saman á ný,“ segir Nichole og kveður nefndina vilja þannig tryggja að engar tafir verði á vinnunni, komi sú staða upp að langan tíma taki að mynda ríkisstjórn.

„Ég er í pínuáfalli yfir að við höfum ekki náð að klára þetta og mér finnst sorglegt að það hafi ekki tekist. Ég tel þó að með þessari yfirlýsingu sé vinnan í ráðuneytinu komin á mun betri stað,“ segir hún.

Til umræðu að læsa sig inni og klára málið

Það hafi alveg komið til umræðu hjá velferðarnefnd að læsa sig inni og klára málið. „En það er samkomulag í gangi milli formannanna sem við þurfum að virða. Við töldum þetta því bestu lendinguna í þeirri stöðu sem við erum í núna og það er okkur mikilvæg sú óvissa, sem tengdist til að mynda bráðabirgðaákvæðunum, að henni sé eytt.“

Nichole kveðst vera bjartsýn á að næsta þing muni geta staðfest lögin fyrir jól og sjálf kveðst hún  munu óska eftir að fá sæti í samráðshópnum. „Þó að ég verði í kosningabaráttu mun ég óska eftir því, af því að ég tel það á mína ábyrgð sem formaður velferðanefndar að halda áfram þessari vinnu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert