Níu flokkar gætu náð manni á þing

Ef níu flokkar næðu manni inn á þing yrði það …
Ef níu flokkar næðu manni inn á þing yrði það met á lýðveldistímanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það gæti farið svo að níu flokkar nái mönnum inn á þing eftir kosningar 28. október. Slíkt yrði met á Alþingi Íslendinga á lýðveldistímanum, en nú eiga sjö flokkar fulltrúa á þingi.

Flokkarnir níu sem um ræðir eru Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri græn, Píratar, Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn, Björt framtíð, Viðreisn, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn. Miðað við síðustu kannanir myndu Björt framtíð og Viðreisn þó ekki ná manni inn á þing.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálfræði við Háskólann á Akureyri, segir líkur á að níu flokkar nái manni inn á þing ekki miklar, en þó geti ýmislegt gerst á síðustu metrunum sem verði til þess. Björt framtíð eigi til að mynda hugsanlega inni fylgi á landsbyggðinni.

„Björt framtíð á sveitarstjórnarfulltrúa víða um land og er því með tengingar víða. Maður veit aldrei hvað þeir geta kraflað á lokametrunum. Björt framtíð var eiginlega sigurvegari sveitarstjórnarkosninganna 2014 og fengu kjörna fulltrúa nokkuð víða. Það er alltaf einhver hjálp í því að koma sér á framfæri og ná sambandi við fólk.“

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri. mbl.is

Gæti komið upp skortur á jöfnunarþingsætum

Núverandi kerfi er þó varla hannað fyrir svo marga flokka og það gæti farið svo að skortur yrði á jöfnunarþingsætum.

„Þetta getur endað með níu flokkum inni á þingi og þá verða nokkrir þeirra mjög naumlega inni. Ef við gefum okkur að þessir flokkar nái fimm prósentum Þá verða örugglega ekki til nógu mörg jöfnunarsæti, en það verður auðvitað að koma í ljós.“

Grétar bendir á að jöfnunarsætin séu aðeins níu en að bent hafi verið á að þau þyrftu að vera fimmtán svo það komi ekki upp skortur líkt og gerðist 2013. „Þá fékk Framsóknarflokkurinn eiginlega tvo aukamenn miðað við fylgi.“

Grétar segir hætt við að þetta gerist þegar margir flokkar, sem ekki eru með marga kjördæmakjörna menn, fái rétt yfir fimm prósent atkvæða.

„Svo er auðvitað hitt, ef þeir eru að taka fjögur til fimm prósent og komast ekki inn, þá er töluvert mikið af fylgi að falla dautt undir þröskuldinn. Það verður þeim í hag sem eru réttu megin við.“ Slíkt hefði jákvæðust áhrif á þá flokka sem hafa flesta kjördæmakjörnu þingmennina. „Það er spurning með Framsóknarflokkinn í þeim efnum, þeir eru auðvitað laskaðir, en það myndi koma Sjálfstæðisflokknum vel. Hann fékk síðast marga kjördæmakjörna menn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert