Samfylkingin vill tvöfalda barnabætur

Loga Einarssonar, formaður Samfylkingarinnar, á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag.
Loga Einarssonar, formaður Samfylkingarinnar, á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. Ljósmynd/Árni Sæberg

„Við mætum nú til leiks með mikið breyttan hóp í framlínunni, sem er fullur ákefðar að bera fram stefnu sósíaldemókrata og bjóða upp á lausnir sem hafa gert Norðurlöndin að kraftmestu og manneskjulegustu samfélögum í sögu mannkynsins.“ Þetta kom fram í ræðu Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. 

Logi rifjaði upp sögu Samfylkingarinnar og forvera hennar sem hann sagði samofna réttindabaráttu alþýðunnar. Hann nefndi t.d. Vökulögin, almannatryggingar, jöfn laun karla og kvenna svo dæmi séu tekin. 

„Í dag búa  þúsundir barna enn við fátækt, launamunur eykst og sífellt stærri hluti auðsins safnast á fárra hendur. Við höfum því enn mikilvæg verk að vinna. Og hlutverk okkar skal líka verða stórt í að bæta íslenskt samfélag framtíðarinnar,“ sagði Logi. Hann spurði jafnframt hvernig stæði á því að í þessu auðuga landi ríku af auðlindum, með hátt menntunarstig skuli vinnandi, harðduglegar fjölskyldur varla ná endum saman?

Logi beindi orðum sínum að ríkisstjórninni og forsætisráðherra. „Forsætisráðherra er tíðrætt um jafnvægi og stöðugleika og guð má vita hvað hann á við með því eða af hverju honum dettur í hug að þau verði á einhvern hátt tryggð með viðveru hans. Við göngum nú til kosninga, öðru sinni á einu ári eftir að tvær ríkisstjórnir, með hann innanborðs, hrökklast frá völdum, rúnar trausti að kröfu almennings.“

Ríkisstjórnin hafi í fyrra skiptið farið frá völdum vegna spillingar en í seinna skiptið vegna leyndarhyggju. Hann vísaði til þess að í dag hafi íslensk stjórnmál enn á ný komist í kastljós erlendra fjölmiðla „vegna skorts á siðferði og heiðarleika forsætisráðherra þjóðarinnar.“ 

Traustið ekki endurheimt nema málin verði gerð upp

„Traust á milli íslenskra stjórnmálamanna og almennings verður ekki endurheimt nema þessi mál séu rædd ýtarlega og gerð upp. Auk þess þarf almenningur að fá meiri aðkomu að mikilvægum ákvörðunum. Viljum við t.d. að stjórnmálamennirnir skrifi samfélagssáttmálann einir? Eiga þeir að setja leikreglurnar sem þeir starfa eftir einir?  Auðvitað ekki . Nú þegar öldur hrunsáranna eru farnar að lægja, er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að þjóðin ráði för í stjórnarskrármálinu,“ sagði Logi. 

Logi vill að þjóðin kjósi um Evrópumálin, það er að segja kjósa um hvort við viljum taka upp evru eða ekki. 

Loga var tíðrætt um kjör barnafjölskyldna. Hann vísaði í nýjar tölur frá verkalýðshreyfingunni og Hagstofunni sem sýna að þrengt er að venjulegu fólki á meðan skattbyrði er létt af breiðustu bökunum. Samfylkingin vill tvöfalda barnabætur til að hjálpa ungu fjölskyldufólki. 

Mun auka vaxta- og húsnæðisbætur 

Samfylkingin vill jafnframt hlífa lág- og millitekjuhópum við frekari álögum og grípa til aðgerða til að bæta stöðu þessa hóps. Samfylkingin mun auka vaxta og húsnæðisbætur og tryggja að hér verði  byggðar nokkur þúsund íbúðir í almennum leigufélögum. Þær íbúðir munu verða raunhæfur valkostur fyrir lægri tekjuhópa.

Flokkurinn heitir því einnig að öryrkjar búi við betri aðstæður, auka lífsgæði þeirra, bæta kjörin og draga úr tekjuskerðingum. 

Auknu fé verður varið til heilbrigðiskerfisins. „Samfylkingin hafnar einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og leggur áherslu á að styrkja heilbrigðisþjónustu í opinberri eigu. Við ætlum að svara kalli þjóðarinnar,“ segir Logi. 

Hann nefndi það þyrfti að gera betur við háskóla og framhaldsskóla landsins. Einnig verður áhersla lögð á byggðarmálin. 

„Við karlar þurfum að umgangast konur af miklu meir virðingu“

„Við þurfum að ráðast af alefli gegn kynbundnu ofbeldi og herða róðurinn í átt að jafnrétti kynjanna. Þar skiptir ekki minnstu máli að breyta gildismati og uppeldi barnanna okkar. Við karlar þurfum að umgangast konur af miklu meir virðingu. Stjórnarslitin voru óþægileg áminning um það. Að sjálfsögðu er barátta gegn öllu misrétti, allri kúgun samofin baráttu okkar jafnaðarmanna,“ sagði Logi. 

Að lokum hvatti hann til samstöðu og gleði í hjarta því slíkt myndi leiða til ríkulegrar uppskeru á kosningadaginn. 

Flokksfundur Samfylkingarinnar
Flokksfundur Samfylkingarinnar mbl.is/Árni Sæberg
Frá fundi Samfylkingarinnar.
Frá fundi Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert