Segist vera í atvinnuviðtali hjá þjóðinni

Karl Gauti Hjaltason var skólastjóri Lögregluskólans, en nú leiðir hann …
Karl Gauti Hjaltason var skólastjóri Lögregluskólans, en nú leiðir hann lista Flokks Fólksins í Suðurkjördæmi. Árni Sæberg

Karl Gauti Hjaltason, sem leiðir framboðslista Flokks Fólksins í Suðurkjördæmi, er á meðal þeirra tuttugu og sex sem sótt hafa um stöðu saksóknara við embætti ríkissaksóknara. Hann var áður sýslumaður í Vestmannaeyjum frá 1998-2014 og skólastjóri Lögregluskóla Íslands frá 2014-2016.

„Ég á ekkert víst þingsæti, frekar en nokkur annar,“ segir Karl Gauti í samtali við mbl.is, er hann er spurður að því hvernig það fari saman að leiða lista stjórnmálaflokks og að sækjast eftir nýju starfi.

„Ef ég kemst ekki á þing mun ég halda minni umsókn til streitu, en ef ég kemst á þing mun ég draga hana til baka, að sjálfsögðu. Ég er bara að sækja um vinnu og jafnframt í framboði. Það á enginn neitt þingsæti, það er alveg klárt. Það þarf umboð kjósenda til þess,“ segir Karl Gauti.

Flokkur Fólksins mældist með 9% fylgi í síðustu könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem gerð var fyrir Morgunblaðið. Það myndi skila þeim sex þingmönnum og líklegt að Karl Gauti yrði einn þeirra.

„Þó að kannanir sýni eitthvað í dag þá er ekkert búið að telja upp úr kjörkössunum. Menn geta nú sótt um fleiri en eitt starf í einu. Ég er í atvinnuviðtali núna hjá þjóðinni,“ segir Karl Gauti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert