Vék til hliðar vegna fylgis flokksins í könnunum

Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar. mbl.is/Árni Sæberg

Benedikt Jóhannesson segir í samtali við mbl.is að hann hafi í gærkvöldi ákveðið í samráði við fjölskyldu sína að víkja úr sæti formanns Viðreisnar, en ráðgjafaráð flokksins samþykkti í kvöld að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir yrði nýr formaður flokksins fram að næsta landsþingi sem verður haldið eftir áramót. Hafði þingflokkur Viðreisnar áður samþykkt einróma tillögu þess efnis.

Benedikt segir að hann hafi sjálfur tekið ákvörðunina og ekki hafi verið um að ræða þrýsting frá flokksfélögum. „Staðan í skoðanakönnunum ekki verið góð að undanförnu,“ sagði hann og bætti við að þá hafi hann orðið að huga að því hvernig hægt væri að bæta stöðuna. „Ég taldi að mínir persónulegu hagsmunir þyrftu að víkja fyrir stærri hagsmunum.“

Benedikt segir starfið í kringum Viðreisn hafi verið aðalstarf hans síðustu þrjú árin og á þeim tíma hafi hann verið vakinn og sofinn yfir málefnum flokksins. Hann muni áfram vinna með flokknum og vera í framboði fyrir hann fyrir komandi kosningar. „Ég er enn jafn mikill Viðreisnarmaður og áður,“ segir Benedikt.

Spurður hvort ákvörðunin hafi komið í kjölfar ummæla hans í þættinum Forystusætinu á Rúv í vikunni vísar Benedikt aftur til fylgis flokksins í könnunum. Í þættinum sagði hann alla hafa gleymt ástæðum þess að ríkisstjórnarsamstarfinu var slitið. Baðst hann síðar afsökunar á þeim ummælum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert