Píratar kynntu tillögu til fjárlaga

Píratar á fundinum í morgun.
Píratar á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert

Tillaga Pírata til fjárlaga fyrir löggjafaþingið 2017 til 2018 var kynnt á blaðamannafundi í morgun. Þar kemur fram að tekjur vegna veiðigjalds fyrir veiðiheimildir fari úr rúmum 5,5 milljörðum króna vegna fjárlaga ársins 2017 yfir í 12 milljarða króna og hækki þar með um 117 prósent.

Einnig reikna þeir með að tekjur vegna sölu á heimildum til losunar gróðurhúsalofttegunda fari úr 290 milljónum króna í 790 milljónir króna. Aukningin nemur 172 prósentum.

Píratar vilja setja rúma 25 milljarða króna í húsnæðisstuðning í stað rúmlega 14 milljarða króna og nemur aukningin 77 prósentum.

Hvað gistináttaskatt varðar reikna Píratar með tekjum upp á tvo milljarða króna í stað 745 milljóna í fjárlögum ársins 2017. Hækkunin nemur 168 prósentum.

Helgi Hrafn Gunnarsson, Pírati.
Helgi Hrafn Gunnarsson, Pírati. mbl.is/Eggert

Auknar skatttekjur

Píratar reikna með í kringum 20% hærri tekjum, annars vegar vegna tekjuskatts lögaðila og hins vegar vegna fjármagnstekjuskatts. Tekjur vegna virðisaukaskatts verði jafnframt 10 prósent hærri, eða 240 milljarðar króna í stað 218 milljarða króna.

Einnig reikna þeir með 22% hærri tekjum vegna fjármagnstekjuskatts og 19% hærri tekjum vegna tekjuskatts lögaðila.

Tekjur vegna tekjuskatts einstaklinga og staðgreiðslu nemi 162,2 milljörðum króna, sem er 2 prósentum meira en í fjárlögum ársins 2017.

Umtalsvert hærra olíugjald

Píratar leggja til að tekjur vegna olíugjalds aukist úr 10,1 milljarði króna í 12,4 milljarða og aukist þar með um 23 prósent og að tekjur vegna áfengisgjalds verði 6 prósentum meiri en í fjárlögum ársins 2017. Tóbaksgjald verði aftur á móti óbreytt. 

Píratar vilja auka framlög til utanríkismála um 8 prósent, til samgöngu- og fjarskiptamála um 13 prósent , til háskólastigs um 5 prósent og framhaldsskólastigs um 3 prósent.

Nokkrir af gestum fundarins.
Nokkrir af gestum fundarins. mbl.is/Eggert

Aukin framlög til heilbrigðismála

Í heilbrigðismálum vilja Píratar hækka framlög mest í prósentum talið til lyfja og lækningavara, eða um 20%.

Reiknað er með tæpum 93 milljörðum króna í sjúkrahúsþjónustu, sem er aukning um 12 prósent, og rúmum 47 milljörðum í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, sem einnig er 12 prósenta aukning. Píratar vilja jafnframt auka framlög til örorku og málefna fatlaðs fólks um 16 prósent og til aldraða um 11 prósent.

Píratar segja að ofangreind atriði lýsi mikilvægum breytingum sem liggja kosningaáherslum Pírata til grundvallar. 

Upphaf að samtali við landsmenn 

Í tilkynningu frá Pírötum segir að um skuggafjárlög Pírata sé að ræða þar sem tilgreint er í hvaða málaflokkum flokkurinn vill breyta út af því sem síðasta ríkisstjorn lagði áherslu á.  Skuggafárlögin eru unnin út frá áherslum hreyfingarinnar en einnig út frá könnunum sem þingflokkur Pírata lét vinna í aðdraganda kosninga um hvernig landsmenn vilja forgangsraða ríkisfjármnum.

„Enginn flokkur ræður einn. Við leggjum þetta því fram sem upphaf að samtali við landsmenn og aðra flokka. Þetta eru okkar áherslur sem við teljum okkur geta sýnt fram á hvernig verði fjármagnaðar. Þessi skjöl eru gerð aðgengileg öllum til að fólk geti lagt á þau mat, gagnrýnt þau eða stungið upp á breytingum. Þetta er tilraun til þess að gera kosningabaráttuna gegnsærri og auka trúverðugleika þeirra hugmynda sem eru bornar á borð af flokkum,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, Pírati, á blaðamannafundinum, að því er kemur fram í tilkynningunni.

„Við vonum innilega að þessar hugmyndir fái víðtæka umræðu og gagnrýni, og best af öllu væri ef aðrir flokkar tækju þátt í því með okkur að  vinnubrögðum sem auka traust á stjórnmálum og koma okkur út úr þeirri hefð að krefjast kosningaloforða án tillits til þess hvernig þau skuli uppfyllt," sagði Helgi.

Stórátak í húsnæðismálum 

Í tilkynningunni kemur fram að Píratar vilji gera stórátak í húsnæðismálum og verja minnnst 11 milljörðum króna á næsta ári til að byrja að vinna upp mörg þúsund íbúða skort.

Flokkurinn vill einnig blása til sóknar í heilbrigðismálum, ekki síst þegar kemur að geðheilbrigði, og tryggja að allir sem þurfa á hjálp að halda fái viðeigandi aðstoð.

Píratar ætla að bæta stöðu öryrkja með því að einfalda greiðslukerfið, útvíkka atvinnumöguleika eldri borgara, styrkja menntakerfið og ljúka vinnu við nýja stjórnarskrá.

Talaði um þöggunartilburði 

Helgi Hrafn talaði um lögbann á fréttaflutning Stundarinnar og fleiri fjölmiðla sem byggir á gögnum úr Glitni. „Helgi sagði þessa þöggunartilburði minna á mikilvægi baráttu Pírata fyrir tjáningarfrelsi og öðrum mannréttindum ásamt lýðræðisumbótum, en oddvitar Pírata í öllum kjördæmum sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í gær þar sem þessi aðför að tjáningarfrelsinu var fordæmd. Píratar hafa frá upphafi sett upplýsingafrelsi á oddinn ásamt baráttu gegn spillingu,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert