Menn endurtaka sömu fyrirheitin

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það var mikill samhljómur meðal fulltrúa flokkanna um að það væri mikilvægt að stefna vísinda- og tækniráðs á hverjum tíma næði fram að ganga,“ segir Rúnar Vilhjálmsson, formaður Félags prófessora við ríkisháskóla. Félag prófessora við ríkisháskóla og Vísindafélag Íslendinga buðu fulltrúum stjórnmálaflokka til málþings í hádeginu þar sem framtíð háskóla á Íslandi var til umræðu.

Öllum flokkum á þingi var boðið og þeim flokkum sem hafa mælst yfir mörkum til að ná monnum inn á þing samkvæmt síðustu skoðanakönnunum. Átta framboð mættu: Flokkur fólksins, Miðflokkurinn, Viðreisn, Björt framtíð, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, VG og Píratar. Sjálfstæðismenn mættu ekki en Rúnar segir þá ekki hafa svarað ítrekunum.

Flestir voru sammála um alvarlegt misræmi milli stefnu vísinda- og tækniráðs í málefnum háskóla og vísinda og fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar þar sem lítil aukning er áformuð á fjárveitingum til háskólastigs á næstu árum,“ segir Rúnar.

Hann benti á að það vantaði um það bil 10 milljarða inn í háskólakerfið til að ná meðaltali Norðurlandann. „Á meðan er talað um að veita nokkur hundruð milljónum aukalega, samkvæmt fjármálaáætlun,“ segir Rúnar og bætir við að æskilegra væri að fylgja stefnu vísinda- og tækniráðs en í ráðinu sitja meðal annars ráðherrar ríkisstjórnar.

Sama staða og fyrir ári síðan

Rúnar segir að málþing mjög líkt því sem haldið var í dag hafi farið fram rétt fyrir kosningar í fyrra. „Það hefur ekki orðið mikil breyting síðan þá og menn eru að endurtaka sömu fyrirheitin um að beita sér fyrir verulegu auknu framlagi til háskólastigs og rannsóknarsjóða.“

Rúnar kveðst þrátt fyrir það vera hóflega bjartsýnn. „Það var alvarlegri tónn í umræðunum núna og ég held að menn geri sér betur grein fyrir alvarleika málsins núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert