Fylgi VG og Sjálfstæðisflokks jafnt

Munurinn á fylgi VG og Sjálfstæðisflokks telst innan skekkjumarka.
Munurinn á fylgi VG og Sjálfstæðisflokks telst innan skekkjumarka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fylgi Vinstri-grænna og Sjálfstæðisflokksins mælist jafnt í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, sem birtur er á vef RÚV. Mælast Vinstri-græn með rúmlega 23% fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn með tæplega 23% fylgi. Munurinn telst innan skekkjumarka.

Litlar breytingar verða á fylgi stjórnmálaflokkanna frá síðasta Þjóðarpúlsi, utan að fylgi Bjartrar framtíðar fer þó úr 3% niður í 1%.

Fylgi Samfylkingarinnar í könnuninni er rúm 13%, Pírata tæp 11%, Miðflokksins rúm 9% og Framsóknarflokksins rúm 7%. Viðreisn og Flokkur fólksins njóta samkvæmt könnuninni stuðnings tæpra 6%. 

Aðrir flokkar mælast með samanlagt hálfs prósents fylgi.

Björt framtíð myndi falla af þingi samkvæmt könnuninni. Fylgið fer úr 3% niður í 1% og hefur aldrei mælst minna í könnunum Gallup.

Yrðu þetta úrslit kosninganna fengju VG og Sjálfstæðisflokkurinn 15 þingsæti hvor flokkur, Samfylkingin fengi níu þingsæti, Píratar sjö og Miðflokkurinn sex, Framsóknarflokkurinn fengi fimm þingsæti og Viðreisn og Flokkur fólksins fengju þrjá þingmenn hvor flokkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert