Hvaða loforð fá aldraðir og öryrkjar?

Öryrkjar og aldraðir mótmæla við Alþingi.
Öryrkjar og aldraðir mótmæla við Alþingi. mbl.is/Golli

Allir flokkarnir sem bjóða sig fram fyrir alþingiskosningarnar um næstu helgi leggja áherslu á bætt kjör eldri borgara og öryrkja. Notendastýrð persónuleg aðstoð, NPA, er flestum flokkum hugstæð, rétt eins og hækkun eða afnám frítekjumarksins, hækkun eftirlauna aldraðra og sveigjanleg starfslok þeirra en lesa má um þetta á heimasíðum flokkanna. Einnig vilja flestir afnema eða lækka krónu á móti krónu-skerðingu hjá öryrkjum.  

Flestir fulltrúar flokkanna eru sömuleiðis sammála um að auka þurfi fé til uppbyggingar á hjúkrunarrýmum.

Vinstri grænir

Vinstri grænir vilja hækka ellilífeyri þannig að hann fylgi launaþróun og tryggja að enginn sé undir fátæktarmörkum. Einnig vilja þeir hækka frítekjumark vegna atvinnutekna í 109 þúsund krónur til að hvetja eldra fólk til atvinnuþátttöku.   

Horfið verði frá krónu á móti krónu skerðingu á sérstakri framfærsluuppbót öryrkja og tekið upp sanngjarnt frítekjumark.

Sömuleiðis segja Vinstri grænir samstarf við vinnumarkaðinn mikilvægt í því skyni að veita eldra fólki aukna möguleika á hlutastörfum og sveigjanlegum starfslokum. Fram kemur í áherslum þeirra að dvalarheimili og þjónustuíbúðir þurfi að vera á viðráðanlegu verði og að gera þurfi átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn heitir því að halda vel utan um eldri kynslóðina, hækka frítekjumarkið í 100 þúsund krónur á mánuði, styrkja heimaþjónustuna og gera sérstakt átak í að fjölga hjúkrunarheimilum. Þrír milljarðar á ári muni renna úr svokölluðum Þjóðarsjóði í það átak á næstu árum.

Einnig vilja sjálfstæðismenn jafna stöðu ungmenna sem eru í námi og búa hjá foreldrum á örorkulífeyri.

Samfylkingin

Samfylkingin vill afnema krónu á móti krónu-skerðingu og hækka eftirlaun aldraðra svo að þeir fái að minnsta kosti 300.000 krónur á mánuði. Hækkunin verði afturvirkt frá 1. maí 2016. Einnig leggur Samfylkingin áherslu á sveigjanleg starfslok aldraðra.

Í samþykktri stefnu Samfylkingarinnar vill hún að gerð verði  heildstæð löggjöf um málefni fatlaðra sem tryggir réttindi, samfellu og jafnræði í þjónustu fyrir alla, um allt land.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun verði löggiltur strax og örorkubætur hækki í 300 þúsund krónur á mánuði og fylgi þróun lágmarkslauna.

Notendastýrð persónuleg þjónusta (NPA) verði gerð að lögbundinni þjónustu og raunhæfum kosti fyrir fatlað fólk.

Frá mótmælum aldraðra við Stjórnarráð Íslands.
Frá mótmælum aldraðra við Stjórnarráð Íslands. mbl.is/Eggert

Framsóknarflokkurinn

Framsóknarflokkurinn vil efna til stórátaks í byggingu á þjónustuíbúðum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Ætlunin hljóðar upp á 10 milljarða króna fjárfestingu á ári í samstarfi við lífeyrissjóðina og hún á að standa undir byggingu 300 þjónustu- og hjúkrunaríbúða árlega.

Framsókn vill afnema frítekjumark af atvinnutekjum eldri borgara svo þeir sem vilja og geta unnið fái tækifæri til þess. Einnig vill hún setja einn milljarð króna í aukna niðurgreiðslu á tannlæknakostnaði aldraðra.

Flokkurinn vill tryggja að örorkulífeyrir fylgi lágmarkslaunum og vill einnig einfalda lífeyriskerfi öryrkja, afnema krónu á móti krónu-skerðingar og hvetja til starfsendurhæfingar.

„Halda þarf áfram að fjölga leiguheimilum fyrir öryrkja og fatlað fólk í almenna íbúðakerfinu. Draga þarf úr heilbrigðiskostnaði öryrkja með því að lækka enn frekar þakið í greiðsluþátttökukerfinu,“ segir á heimasíðu Framsóknarflokksins.

Flokkur fólksins

Í áherslum Flokks fólksins kemur fram að öryrkjum og eldri borgurum verði tryggð mannsæmandi afkoma svo að þeir geti lifað með reisn.

Flokkur fólksins vill löggildingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þar með innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð, NPA.

„Afnema ber skerðingar greiðslna milli almannatrygginga og lífeyrissjóða til einstaklinga og fella brott frítekjumarkið. Hafnað er fyrirliggjandi drögum að starfsgetumati. Fullt samráð verði haft við hagsmunasamtök öryrkja um nýtt starfsgetumat m.a. með því að koma á miðstöð starfsgetu og endurhæfingar,“ segir á heimasíðu flokksins.

Viðreisn

Viðreisn leggur áherslu á að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur og fylgt eftir með aðgerðum.

Lífeyriskerfi almannatrygginga verði einfaldað og dregið verulega úr skerðingum vegna annarra tekna. Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái minni heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum.

Umbætur verði gerðar á vinnumarkaði til að bregðast við hækkandi eftirlaunaaldri og opnað fyrir þann möguleika að hefja töku lífeyris almannatrygginga samhliða hlutastarfi. Nýtt verði vinnuframlag allra sem hafa starfsorku og reglur og lög um ákveðinn starfslokaaldur afnumdar.

Aldraðar konur á gangi.
Aldraðar konur á gangi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Píratar

Píratar vilja einnig lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) strax og halda áfram að vinna að úrbótum í málefnum fólks með fötlun og skerta starfsgetu.

Flokkurinn vill hækka örorkulífeyri og lækka krónu á móti krónu-skerðingu. Einnig vill hann að aldraðir fái að vinna án þess að missa áunnin réttindi.

Björt framtíð

Björt framtíð leggur ríka áherslu á að elli- og örorkulífeyrir dugi til framfærslu, auk þess sem flokkurinn vill lögfesta NPA. Björt framtíð vill auka framboð húsnæðis og tryggja að þjónusta við fatlað fólk verði heildræn og samþætt.

Eitt af baráttumálum Bjartrar framtíðar er uppbygging heimaþjónustu. Samhliða henni þarf að mati flokksins að tryggja aðgengi að hjúkrunarrýmum. Það dragi  úr nauðsyn þess að aldraðir dvelji á bráðasjúkrahúsum með tilheyrandi óhagræði fyrir einstaklingana sjálfa og kerfið í heild.

Alþýðufylkingin

Alþýðufylkingin stefnir að því að samræma lífeyristryggingu þeirra sem geta ekki unnið fyrir sér. Greiðsluskylda í lífeyrissjóði verði afnumin.

Flokkurinn vill hækka bætur upp í framfærsluviðmið og að Ísland fullgildi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og komi notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) á laggirnar.

Miðflokkurinn

Í málefnum eldri borgara leggur Miðflokkurinn áherslu á að atvinnutekjur skerði ekki lífeyrisgreiðslur, lífeyrir verði 300.000 krónur og að lágmarkstekjur aldraða og öryrkja fylgi lágmarkslaunum á vinnumarkaði.

Flokkurinn leggur til að lyfseðilsskyld lyf verði undanþegin virðisaukaskatti og aukin samkeppni verði í lyfjainnflutningi í gegnum ríkisútboð. Átak verði gert í þjónustuíbúðum fyrir aldraða og persónuafsláttur fylgi verðlagsþróun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert