Kosið um skatta og húsnæði

Talsmenn flokkanna í sjónvarpssal hjá RÚV á dögunum. Þeir munu …
Talsmenn flokkanna í sjónvarpssal hjá RÚV á dögunum. Þeir munu væntanlega mæta aftur til leiks annað kvöld, nema Íslenska þjóðfylkingin sem dró framboð sitt til baka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kosið verður til Alþingis eftir tvo daga og það fer hver að verða síðastur að gera upp hug sinn, hafi hann ekki gert það þegar. Flokkarnir hafa sett fram stefnumál sín og sum málefni hafa fengið meiri athygli og umfjöllun en önnur. Morgunblaðið stiklar hér á stóru um áherslur flokkanna í fjórum málaflokkum.

Skattamál eru eitt af stærstu málunum fyrir þessar kosningar og þar er tekist á um grundvallaratriði.

Vinstri græn hafa lýst því yfir að skattkerfið eigi að vera skilvirkt, réttlátt, grænt og tekjujafnandi þannig að það eyði aðstöðumun. Nýta beri skattkerfið til að jafna eignastöðu, hinir efnamestu séu skattlagðir umfram hina tekjulægri. Taka eigi upp auðlegðarskatt, hátekjuskatt og þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt auk skatts á gjaldeyrisviðskipti og skammtímahagnað. Auka þurfi skattaeftirlit og skattrannsóknir.

Sjálfstæðisflokkurinn vill aftur á móti halda sköttum í lágmarki, að skattkerfið sé einfalt, gagnsætt og sanngjarnt. Tekjuskattur almennings verði lækkaður í 35%, tryggingargjald verði lækkað sem og fjármagnstekjuskattur. Erfðafjárskattur verði sömuleiðis lækkaður í 5% og verði að endingu afnuminn. Þá verði virðisaukaskattkerfið einfaldað og undanþágum fækkað. Flokkurinn vill að lögbundið lágmarksútsvar sveitarfélaga verði afnumið og haldið verði áfram á þeirri braut að afnema tolla.

Píratar vilja hækka persónuafsláttinn strax á næsta ári um sjö þúsund krónur á mánuði og að frekari hækkanir fylgi, alls 26 þúsund krónur á kjörtímabilinu þannig að hann fylgi launaþróun. Við lok kjörtímabils verði persónuafsláttur því tæpar 78 þúsund krónur á mánuði. Þá lýsti Helgi Hrafn Gunnarsson því yfir í viðtali á RÚV í fyrrakvöld að Píratar vildu hækka fjármagnstekjuskatt úr 20% í 30%.

Kosið verður til Alþingis á laugardaginn. Búast má við nokkurri …
Kosið verður til Alþingis á laugardaginn. Búast má við nokkurri endurnýjun í þingliðinu miðað við skoðanakannanir að undanförnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samfylkingin leggur áherslu á hallalausan rekstur ríkissjóðs, lækka þurfi skuldir og draga úr vaxtakostnaði. Flokkurinn vill hækka auðlindagjöld og beita bæði beinum og óbeinum sköttum til að ná markmiðum um tekjudreifingu og jöfnuð. Tekjuskattur sé þrepaskiptur og hærri skattar séu lagðir á þá tekjuhærri.

Meðal áherslumála Miðflokksins er að lækka tryggingargjald og skattleggja sparnað við inngreiðslu í lífeyrissjóði í stað útgreiðslu. Með því minnki fjárfestingarþörf lífeyrissjóða og yfirvöld geti greitt niður skuldir ríkisins hraðar.

Flokkur fólksins hefur boðað að persónuafsláttur verði hækkaður svo tryggja megi 300 þúsund króna skattfrjálsa framfærslu á mánuði. Tekjur umfram það verði skattlagðar í þremur þrepum þar sem persónuafsláttur fari lækkandi eftir því sem launin eru hærri.

Framsóknarflokkurinn telur sanngjarnt að hátekjufólk greiði meira til samfélagsins en aðrir. Hátekjuskattur verði lagður á ofurlaun og ofurbónusa. Flokkurinn vill lækka tryggingargjald frekar og einfalda umhverfi smáfyrirtækja, endurskoða erfðafjárskatt og fella niður virðisaukaskatt á barnaföt.

Viðreisn boðar markvissa efnahagsstjórn og einfaldara skattaumhverfi, undanþágum og íþyngjandi reglum verði fækkað. Flokkurinn vill að kaupendum fyrstu íbúðar verði heimilað að stofna skattfrjálsa sparnaðarreikninga í aðdraganda íbúðarkaupa.

Björt framtíð kveðst vilja nýta skattkerfið sem hagstjórnartæki og hvetja til fjárfestinga í nýsköpun og sprotafyrirtækjum. Boðar flokkurinn áherslu á græna skatta. Tryggingargjald verði lækkað og sjálfsagt sé að greitt sé auðlindagjald fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda.

Húsnæðismál sett á oddinn

Í húsnæðismálum hefur Framsóknarflokkurinn lagt til svokallaða svissneska leið. Í henni felst að ungu fólki verði heimilað að taka út iðgjald sem það hefur lagt í lífeyrissjóð og nýta sem útborgun við íbúðarkaup. Sjálfstæðisflokkurinn vill sömuleiðis auðvelda ungu fólki íbúðarkaup, með skattalegum og vaxtalegum hvötum til sparnaðar sem standi undir útborgun við fyrstu kaup.

Samfylkingin boðar að hægt verði að nýta fyrirframgreiddar vaxtabætur til að fjármagna útborgun við húsnæðiskaup. Þetta gæti numið þremur milljónum króna fyrir fólk í sambúð.

mbl.is/Eggert

Í stefnuskrá Pírata er þess getið að bæta skuli aðstæður á leigumarkaði með því að húsnæði sem stendur autt verði í boði á almennum markaði. Þá vill flokkurinn auðvelda fólki að færa sig á milli lánastofnana með því að festa stimpilgjöld og lántökukostnað í eðlilegri upphæð. Alþýðufylkingin boðar að allir eigi kost á vaxtalausu láni til hóflegra íbúðarkaupa eða á félagslegu leiguhúsnæði.

Í áherslum Miðflokksins kemur fram að vaxtalækkun sé lykilatriði til að bæta kjör almennings og að hægt verði að nýta séreignarsparnað í húsnæði. Viðreisn leggur áherslu á húsnæði fyrir alla og hefur formaðurinn lýst því yfir að flokkurinn ætli sér að leysa húsnæðisvandann, sérstaklega hjá ungu fólki, og vilji sé til að lækka vexti.

Vinstri græn vilja hækka húsnæðisbætur og samræma þær fyrir eigendur og leigjendur. Markmiðið sé að húsnæðiskostnaður fari ekki yfir fjórðung af ráðstöfunartekjum. Tryggja þurfi húsnæðislán fyrir alla tekjuhópa og tvöfalda þurfi stofnframlög til uppbyggingar leiguhúsnæðis.

Björt framtíð leggur áherslu á lækkun vaxta, afnám stimpilgjalda og að hægt verði að nota hluti greiðslna í lífeyrissjóði til afborgana af húsnæðislánum. Flokkur fólksins vill koma á fót félagslegu kaupleigukerfi og leigumarkaði sem hefur ekki hagnað að leiðarljósi.

Leiðin að nýrri stjórnarskrá

Flestir flokkar lýsa sig fylgjandi breytingum á stjórnarskránni þó ólíkar skoðanir séu á hvaða leið eigi að fara.

Vinstri græn vilja ljúka þeirri vinnu sem hófst með þjóðfundinum 2010 og klára nýja stjórnarskrá byggða á tillögum Stjórnlagaráðs. Píratar og Samfylkingin vilja samþykkja nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs.

Viðreisn vill ferli sem leiði til nýrrar stjórnarskrár. Það ferli eigi að taka mið af tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá og annarri vinnu að stjórnarskrárbreytingum á síðari stigum. Björt framtíð vill að breytingar verði gerðar á stjórnarskránni í samræmi við niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar haustið 2012 þar sem kosið var um tillögur stjórnlagaráðs.

Miðflokkurinn vill endurskoða stjórnarskrána í köflum á næstu tveimur kjörtímabilum. Framsóknarflokkurinn kveðst vera hlynntur endurskoðun á stjórnarskrá. Mikilvægt sé að fyrst sé horft til breytinga sem lúta að nýju auðlindaákvæði og skýrum ákvæðum um beint lýðræði og ekki verði opnað á framsal fullveldis. Flokkurinn vill jafna atkvæðavægi en hafnar því að landið verði gert að einu kjördæmi. Alþýðufylkingin vill nýja stjórnarskrá byggða á tillögum stjórnlagaráðs, en með breytingum.

Sjálfstæðisflokkurinn telur að fara þurfi varlega í breytingar á stjórnarskránni og heildarendurskoðun hennar samrýmist illa sjónarmiðum um réttaröryggi, stöðugleika og fyrirsjáanleika. Flokkurinn telur að ekki sé heillavænlegt að knýja fram róttækar stjórnarskrárbreytingar í krafti þingmeirihluta hverju sinni heldur þurfi breytingar að eiga sér stað af yfirvegun og í viðtækri pólitískri sátt til að tryggja samstöðu og stöðugleika í stjórnskipun landsins.

Bæta kjör lífeyrisþega

Grétar Þór Eyþórsson.
Grétar Þór Eyþórsson. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Það þarf ekki að koma mikið á óvart að allir flokkarnir leggja áherslu á bætt kjör eldri borgara og öryrkja. Fjölgun hjúkrunarrýma eru ofarlega á lista yfir brýn verkefni flokkanna.

Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn vilja báðir að frítekjumark verði hækkað í 100 þúsund krónur en Framsókn og Miðflokkurinn vilja afnema það. Samfylking vill að aldraðir og öryrkjar fái minnst 300 þúsund krónur á mánuði.

Píratar, Björt framtíð, Flokkur fólksins og Alþýðufylkingin vilja lögfesta NPA og Viðreisn og Miðflokkurinn vilja að lífeyrir fylgi lágmarkslaunum á vinnumarkaði.

Bitnar á dýptinni

„Þetta eru meira og minna sömu og svipaðar áherslur og voru fyrir ári,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.

„Þessi skammi tími bitnar auðvitað á dýptinni sem verður í málefnaumræðu fyrir kosningar. Fyrir vikið fara þær að snúast um einstaklinga og traust á þeim og flokka og traust á þeim. Það opnar líka fyrir skítkast ef út í það er farið,“ segir hann.

„Það eru allir með endurreisn heilbrigðiskerfisins eins og í fyrra og það vilja allir bæta kjör aldraðra og öryrkja. Það sem hefur breyst frá í fyrra er að flokkarnir eru farnir að tala sérstaklega um átak gegn kynbundnu ofbeldi og húsnæðismálin brenna meira á fólki en í fyrra, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert