Gera ráð fyrir lokatölum um kl. 6

Samkvæmt formönnum yfirkjörstjórna má gera ráð fyrir að úrslit alþingiskosninganna liggi fyrir um kl. 6 í fyrramálið. Í víðfeðmum kjördæmum landsbyggðarinnar fara atkvæðin um langan veg, oftar en ekki í lögreglufylgd, og þá geta óvæntar uppákomur valdið ófyrirséðum töfum.

Reykjavíkurkjördæmin

Samkvæmt kjörskrárstofni Þjóðskrár Íslands eru atkvæðabærir Íslendingar 248.502. Fjölmennustu kjördæmin eru Reykjavíkurkjördæmi norður, þar sem kjósendur telja 46.109, og Reykjavíkurkjördæmi suður, þar sem kjósendur eru 45.607, en í báðum kjördæmum gera menn ráð fyrir að ljúka talningu um kl. 4.30 í fyrramálið.

Í Reykjavíkurkjördæmi norður verður talið í ráðhúsinu og í Reykjavíkurkjördæmi suður í Hagaskóla.

Graf/Þjóðskrá Íslands

Suðvesturkjördæmi

Suðvesturkjördæmi nær telur Garðabæ, Hafnarfjörð, Kjósarhrepp, Kópavog, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ. Kjósendur í kjördæminu eru 69.498; flestir í Kópavogi og Hafnarfirði en fæstir í Kjósarhreppi, þar sem þeir eru 192.

Að sögn Ástríðar Grímsdóttur, formanns yfirkjörstjórnar, er von á fyrstu kössum í hús fyrir kl. 18.30 en síðustu kössunum um kl. 23. Við venjulegar aðstæður, þegar allt gengur svo til hnökralaust, er von á lokatölum á milli kl. 3 og 4 en Ástríður gerir ráð fyrir að þær muni liggja fyrir eitthvað seinna að þessu sinni, vegna fjölda utankjörfundaratkvæða.

Talning í Suðvesturkjördæmi fer fram í Kaplakrika.

Suðurkjördæmi

Í Suðurkjördæmi eru 36.154 kjósendur; flestir í Reykjanesbæ, 11.004, en fæstir í Ásahreppi, 143. Talið verður í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

„Miðað við reynslu síðustu kosninga eigum við ekki von á að það verði fyrr en um klukkan fimm á sunnudagsmorgun sem síðustu kassar koma í hús en þá líður nú yfirleitt ekki langur tími þar til við getum klárað,“ segir Ólafía Ingólfsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar.

Þeir kassar sem koma lengst að eru að koma frá Hornafirði, að sögn Ólafíu, en gera má ráð fyrir að þeir leggi af stað um kl. 23.30. Það er lögreglan á svæðinu sem fylgir kössunum í hús og kemur raunar við í a.m.k. fimm kjördeildum á leiðinni til að sækja atkvæði.

Ólafía segir veðurspá hagstæða, bæði hvað varðar flutningana frá Hornafirði og eins frá Vestmannaeyjum. „Þannig að ef allt fer samkvæmt áætlun og ekkert óvænt kemur upp á ættum við að vera komin með lokatölur fyrir klukkan sex á sunnudagsmorgun,“ segir hún.

Graf/Þjóðskrá Íslands

Norðausturkjördæmi

„Síðustu kassar hafa gjarnan verið að koma í hús hjá okkur um tvöleytið,“ segir Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi. Þar eru kjósendur 29.618, flestir á Akureyri, 13.988, en fæstir í Tjörneshreppi, 56.

Talið er í Brekkuskóla á Akureyri en í fyrra bar svo undir að síðustu kassar til að skila sér í hús voru einmitt frá Akureyri. Margir kjörkassar koma þó lengra að; frá Húsavík, Þingeyjarsýslunum og að austan.

„Það kemur flugvél frá Egilsstöðum,“ útskýrir Ólafur. „Kössunum er safnað á fjörðunum þarna niður frá og ætli þeir séu ekki að koma um eitt- eða tvöleytið.“

Talninguna segir Ólafur hins vegar allt annað mál en oft séu menn ekki að klára fyrr en um kl. 6 um morguninn. Talningu kjörfundaratkvæða gæti lokið um kl. 3 eða 4 en þá séu utankjörfundaratkvæðin eftir.

Hann segir fyrrnefnda tíma miða við að allt gangi vel. „Það þarf ekki nema að eitt atkvæði misfarist í talningu og þá er bara stoppað og það gerist ekkert fyrr en búið er að leiðrétta villuna. Það fer auðveldlega klukkutími í það ef það gerist.“

Norðvesturkjördæmi

Í Norðvesturkjördæmi verður talið í Borgarnesi en Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar, á ekki von á síðustu kössum í hús fyrr en á milli kl. 3 og 4. Flytja þarf kassa frá Vestfjörðum, sem tekur sinn tíma.

„Kjörstöðum er ekki lokað fyrr en klukkan tíu og þá eiga kjörstjórnir eftir að ganga frá. Og [kassarnir] leggja ekki af stað fyrr en klukkan ellefu eða tólf og eru alveg fjóra til fimm tíma að komast frá Ísafirði, þar sem kössum er safnað á leiðinni,“ segir Ingi.

Hann segir bjartsýnustu spá gera ráð fyrir að þeir kassar sem komi lengst að leggi af stað kl. 23, séu komnir í hús um kl. 3 og að klárað verði að telja undir morgun.

Alls telja kjósendur í Norðvesturkjördæmi 21.516. Flestir búa á Akranesi, 5.093, en fæstir í Árneshreppi, 36.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert