Kjörstjórn: „Ekki brot á kosningalögum“

Logi og dóttir hans á Akureyri í morgun.
Logi og dóttir hans á Akureyri í morgun. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson

„Við skiljum það þannig að þetta sé ekki brot á kosningalögum,“ segir Þorsteinn Hjaltason, lögfræðingur í kjörstjórn á Akureyri. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur í dag verið sakaður um að hafa brotið kosningalög þegar hann greiddi atkvæði á Akureyri í morgun. Meint brot á að hafa falist í því að dóttir hans steig með honum inn í kjörklefann.

Í 81. grein kosningalaga frá árinu 2000 stendur ritað: „Þá er kjósandi hefur tekið við kjörseðlinum fer kjósandi með hann inn í kjörklefann, þar sem kjósandinn má einn vera, og að borði því er þar stendur.“

Á að vera til þæginda

Þorsteinn segir í samtali við mbl.is að kjörstjórn líti svo á að andi kosningalaganna mæli ekki gegn því að börn, sem ekki hafi kosningarétt, fylgi foreldrum sínum inn í kjörklefa. Kjörstjórn hafi gefið fyrirmæli þess efnis að foreldrar mættu taka börnin sín inn í kjörklefann. „Þetta á að vera til þæginda og til að auðvelda kosningu fyrir foreldra,“ segir hann og bætir við að öll lög verði að skýra með skynsemi og eftir eðli máls. „Vissulega er sagt að það eigi bara einn að vera í kjörklefanum en við túlkum það þannig að það megi heimila þetta.“

Þetta stangast á við túlkun formanns kjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, Sveins Sveinssonar, sem sagði við DV.is í dag að atkvæði Loga hefði átt að ógilda - hann hefði átt að vera látinn greiða atkvæði aftur.

Logi segist í samtali við mbl.is ekki hafa vitað að hann væri að gera eitthvað rangt. „Ég spurði hvort ekki væri í lagi að hún kæmi með mér og það voru engar athugasemdir gerðar við það,“ segir hann þegar hann er beðinn um að fara yfir atburðarrásina.

Lög eru lög

Hann segist í kjölfarið hafa farið yfir málið með lögmanni, sem hafi sagt honum að lögin væru sett til að verja þann sem væri að greiða atkvæði gegn því að einhver hefði áhrif á það hvernig hann greiddi atkvæði. „Í þessu tilfelli erum við með formann Samfylkingarinnar og frambjóðanda í kjördæminu,“ segir Logi léttur í bragði og bætir við: „Svo verða menn bara að meta hvort þeir telji líklegt að 12 ára gömul dóttir hans hafi þannig áhrif á hann að hann kjósi Framsóknarflokkinn.“

Hann bætir þó við að lög beri að virða. „Lög eru lög, ég ætla ekki að afsaka þetta. Þetta var klaufaskapur sem byggði á því að ég vissi þetta ekki.“

Logi segist spenntur fyrir kvöldinu, en Samfylkingin hefur verið að bæta við sig fylgi að undanförnu. Spurður hvað hann vonist til að fá mikið fylgi svarar Logi því til að 12-13 prósent atkvæða væru í hans  huga stórsigur, enda hefði markið þegar baráttan hefði hafist verið sett á einn þingmann í hverju kjördæmi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert