Jafnréttismál forsenda samstarfs

Þorgerður Katrín og Guðmundur Kristján, aðstoðarmaður hennar, ganga út úr …
Þorgerður Katrín og Guðmundur Kristján, aðstoðarmaður hennar, ganga út úr Útvarpshúsinu í hádeginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðeins 24 konur eru í hópi nýkjörinna þingmanna, sex færri en í kosningunum fyrir ári. Formenn stjórnmálaflokkanna ræddu stöðuna í Silfrinu á RÚV í hádeginu. Þau voru flest sammála um að hlutur kvenna væri óásættanlegur, en þó ósammála um hvað ylli.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði miklu máli skipta fyrir Viðreisn að samstarfsflokkar legðu áherslu á jafnréttismál.

„Núna fara menn að tala um stjórnarmyndunarviðræður og fleira. Fyrir flokk eins og Viðreisn, þar sem jafnrétti er lykillinn að allri nálgun, er mér til efs að það sé endilega fýsilegt að fara með flokkum sem eru með fornaldarviðhorf í jafnréttismálum,“ sagði Þorgerður.

Var orðum hennar ljóslega beint að Miðflokknum og Flokki fólksins, eins og sjá mátti af viðbörgðum forystumanna flokkanna tveggja. Þorgerður sagðist þó, aðspurð, ekki útiloka neinn flokk.

Mest hallar á konur í þingflokki Miðflokksins, en aðeins ein kona er meðal sjö þingmanna flokksins, og hjá Flokki fólksins, þar sem formaðurinn, Inga Sæland, er ein kvenna. Spurð hvort ekki hefði komið til greina að stilla fleiri konum í efstu sæti lista sagði Inga nauðsynlegt að konurnar væru til staðar, fyrir það fyrsta. Ekki hefði verið mikil ásókn í efstu sætin meðal kvenna.

Þingið tapari kosninganna

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði tapara kosninganna vera þingið. „Við erum að missa fullt af konum út af þingi og fá karla eins og mig og eldri inn í staðinn.“ Hann sagði það sérkennileg skilaboð í ljósi þess að tvær síðustu ríkisstjórnir hefðu fallið vegna spillingar og mála sem tengjast ofbeldi gegn konum og börnum.

„Ég held það sé mjög brýnt að við flokkarnir sem höfum lagt áherslu á virðingu, traust, heiðarleika og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi tökum okkur nú tak og setjum það rækilega á dagskrá íslenskra stjórnmála.“

Það var létt yfir Loga Einarssyni í Silfrinu á RÚV …
Það var létt yfir Loga Einarssyni í Silfrinu á RÚV í hádeginu. Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð, formaður Miðflokksins, sagði kynjahlutföll þingmanna flokksins tilviljanakennd, eins og á þinginu öllu. Litlu hefði munað að Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, næði á þing.

„Þetta ræðst auðvitað af því hvernig flokkarnir stilla upp á sína lista. Þar skiptir hlutfall kvenna í hópi oddvita máli. Þetta er ekki tilviljanakenndara en það,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.

Sigmundur sagði áferð stjórnmálanna áhyggjuefni. Hann sagði fólk, og þá sér í lagi konur, ekki hrifið af því hvernig stjórnmálin litu út og því þætti þeim þau ekki freistandi starfsvettvangur.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, talsmaður Pírata, gagnrýndi þessa útskýringu Sigmundar og sagði þau rök vera orðin verulega „þreytt“. „Ég held það sé bara ekki trúverðugt lengur að segja það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert