„Framsókn heldur á lyklinum“

Stefanía Óskarsdóttir telur að ríkisstjórnarmyndun verði auðveldari en á síðasta …
Stefanía Óskarsdóttir telur að ríkisstjórnarmyndun verði auðveldari en á síðasta ári. mbl.is/Styrmir Kári

„Mér sýnist á stöðunni núna að Katrín Jakobsdóttir hafi langmestan möguleika á að mynda ríkisstjórn. Hún hefur flesta til að tala við,“ segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur, en hún ræddi við blaðamann mbl.is um mögulega ríkisstjórnarmyndun, hvarf Bjartrar framtíðar af þingi og hlut kvenna á nýkjörnu Alþingi.

„Katrín gæti myndað ríkisstjórn með fráfarandi stjórnarandstöðu og mér sýnist Framsóknarflokkurinn vera mjög tilbúinn í slíkt. Svo er annar möguleiki sem væri samtal við Sjálfstæðsiflokk og Framsóknarflokk,“ segir Stefanía.

Einn möguleika segir Stefanía vera samstarf VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.
Einn möguleika segir Stefanía vera samstarf VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. mbl.is/Eggert

Hún segir Bjarna vera í þrengri stöðu hvað varðar mögulega samstarfsaðila. Annan möguleika fyrir Katrínu segir hún vera að bjóða Flokki fólksins eða Viðreisn inn í samstarf fráfarandi stjórnarandstöðu. „Til að styrkja samstarfið hefur hún þann möguleika að bjóða þessum flokkum inn, eða báðum jafnvel þó að það yrði ábyggilega svolítið flókið. Mér sýnist boltinn vera svolítið mikið hjá Katrínu.“

Auðveldara að mynda ríkisstjórn en í fyrra

„Að því sögðu þá er lykillinn engu að síður í höndum Framsóknarflokksins því það er hann sem ræður því hvort vinstristjórn undir forystu Katrínar verður að veruleika eða einhvers konar annars konar samstarf. Framsókn heldur á lyklinum.“

Aðspurð segist Stefanía halda að ríkisstjórnarmyndun verði auðveldari núna en í fyrra að því leyti að fólk sé í ákveðinni æfingu. „Í fyrra fóru fram heilmiklar viðræður sem hafa kannski að einhverju leyti haldið áfram, málefnin hafa áfram verið rædd á síðustu mánuðum. Einhverjir þurfa að gefa aðeins eftir í sínum málefnum. Ég t.d. sé fyrir mér að í ríkisstjórn undir forystu Katrínar, s.s. vinstristjórn með Framsóknarflokkinn innanborðs, þá yrðu Evrópumálin ekki sett í neinn forgrunn. Svo væri spurning um hvernig þau myndu tækla húsnæðismál unga fólksins, það gæti kannski verið snúið vegna þess að það hefur komið fram gagnrýni frá ASÍ á þessa svissnesku leið [sem Framsóknarflokkurinn hefur boðað, innskot blm.] Svo er spurning um hvernig stjórnarskrármálið yrði afgreitt því Píratar og Samfylkingin hafa talað fyrir því að taka þau mál fyrir og helst frekar hratt en VG og Framsóknarflokkurinn hafa talað fyrir því að taka þess mál fyrir á lengri tíma.“

Lítið fylgi aðalástæðan fyrir stjórnarslitum

Hvað varðar Bjarta framtíð, stjórnarslitin og hvarf flokksins af þingi hefur Stefanía þetta að segja: „Varðandi Bjarta framtíð þá var vandinn fyrir þann flokk kannski sá að hann var í grunninn vinstriflokkur og var með stuðning frá fólki sem hallast til vinstri. Það var ljóst að eftir að ríkistjórnin var mynduð í fyrra að mörgum mislíkaði, áhrifafólki í Bjartri framtíð mislíkaði og sagði sig í rauninni fljótlega úr flokknum. Skoðanakannanir höfðu verið að sýna lítið fylgi við flokkinn á undanförnum mánuðum og í mínum huga þá var það nú kannski í grunninn ein aðalástæðan fyrir stjórnarslitunum.“

Björt framtíð missti mikið fylgi eftir síðasta ríkisstjórnarsamstarf.
Björt framtíð missti mikið fylgi eftir síðasta ríkisstjórnarsamstarf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Flokkurinn var líka að horfa til sveitastjórnarkosninga og virtist ekki hafa gert sér  grein fyrir því að stjórnarslitunum myndi fylgja nýjar kosningar. Allavega talaði Björt Ólafsdóttir svolítið á þeim nótum að sú ákvörðun hefði ekki verið Bjartrar framtíðar heldur þingsins í heild. Björt framtíð er dæmi um flokk sem hefur grunna innviði, um leið og það blés svona illa á móti hvarf fylgi þeirra mikið til Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.“

Kynjahlutföllin skref aftur á bak

„Með konurnar þá skýrist þetta af því að það hallaði á konur á framboðslistum þessara nýju flokka sem eru að vinna þingsæti,“ segir Stefanía og á við Miðflokkinn og Flokk fólksins. „Sjálfstæðisflokkurinn var að missa konur,  þar hafa konur frekar verið í lægri sætum á framboðslistunum. Það hefur ekki tekist að bjóða fram lista þar sem að í líklegum þingsætum sé hlutfallið jafnt. Af þessum fimm sem töpuðu þingsæti hjá Sjálfstæðisflokknum voru þrjár konur.“ 

Hún segist hafa verið að rifja upp hvenær þingið hafi farið yfir 40% múrinn, en það gerðist árið 2009, og því finnst henni þetta verið skref nokkur ár aftur á bak fyrir þingið. „Svo skulum við náttúrlega líka horfa til þess hvernig samsetning nýrrar ríkisstjórnar verður.“

Árið 1999 voru konur 22 á Alþingi og höfðu aldrei …
Árið 1999 voru konur 22 á Alþingi og höfðu aldrei verið fleiri. Nú árið 2017 telja konur á Alþingi 24.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert