Langar að verða forsætisráðherra

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum sátt við baráttuna sem við háðum og teljum að sú hóflega fylgisaukning sem við sáum snúist um að fólk sé að standa með og sýna okkar gildum og stefnu stuðning,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, í samtali við mbl.is Flokkurinn fékk 16,9% í þingkosningum og bætir við sig einum þingmanni frá síðustu kosningum.

„Við sjáum það líka að vinstrivængurinn er að styrkja sig, við erum að bæta við okkur og Samfylkingin bætir við sig,“ segir Katrín og bendir á að einnig sé áhugavert að síðasta ríkisstjórn hafi kolfallið í kosningunum.

Hún segir að auðvitað hefði flokkurinn viljað fá meira fylgi en telur að allir flokkar hefðu verið til í stærri hluta af kökunni. „Það má segja að þetta kom samt ekki á óvart enda var fylgið í takt við kannanir daginn áður.

Spurð hvort hún vilji leiða stjórnarmyndungunarviðræður segir Katrín að hún telji eðlilegt að sá geri það sem telji sig hafa forsendur til að mynda starfhæfa ríkisstjórn. 

Ég hef bent á það að mér finnst mikilvægt að við förum yfir það í okkar ranni hvert og eitt að stjórnarandstaðan, sem hefur verið, er með nauman meirihluta. Það er ný staða sem mér finnst að við þurfum að fara yfir.

Katrín útilokar ekki neinn flokk fyrir fram og segir að VG vinni út frá markmiðum og stefnu og eigi þar mismikla samleið með hinum flokkunum. „Við höfum líka talað fyrir því að við viljum breyta hvernig við vinnum innan stjórnmálanna og þá er ég ekki bara að tala um ríkisstjórnarsamstarf heldur samstarf á Alþingi.

Langar þig að verða forsætisráðherra?

„Mig langar að leiða ríkisstjórn, alveg absalút.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert