Villtustu draumar Gunnars Braga rættust

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum gríðarlega vel stemmd og þetta er alveg frábært,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, oddviti Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi, í samtali við mbl.is. Miðflokkurinn fékk 10,9% atkvæða í kosningunum í gær og verður með sjö menn á þingi.

„Þetta er árangur og niðurstaða sem maður gat leyft sér að láta sig dreyma um í sínum villtustu draumum.“

Miðflokkurinn fékk nánast nákvæmlega jafnmikið fylgi og Framsóknarflokkurinn en flestir meðlima Miðflokksins voru áður í Framsókn. Þar á meðal Gunnar Bragi sem var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

„Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Framsóknarflokkinn hvernig staða hans er. Þetta eru aðrar kosningarnar í röð þar sem flokkurinn er fastur í 10%. Ég held að þetta sé fyrst og fremst persónulegur sigur Lilju Alfreðsdóttur, annars hugsa ég ekkert um þá. Núna hugsa ég bara um Miðflokkinn og hvernig við vinnum úr okkar stöðu.

Hljótum að fá umboðið

Gunnar Bragi segir Miðflokkinn ótvíræðan sigurvegara kosninganna og af því leiði að hann muni hafa sitt að segja í komandi stjórnarmyndunarviðræðum. „Við teljum að við hljótum að fá umboð á einhverjum tímapunkti þar sem flokkurinn er sigurvegari kosninganna.“

Hann telur að forsetinn eigi að veita flokknum umboðið fyrst. „Það finnst mér eðlilegt. Taki forsetinn aðra ákvörðun þá virðum við það að sjálfsögðu,“ segir Gunnar Bragi og bætir við að flokkurinn útiloki enga samstarfsflokka í mögulegu ríkisstjórnarsamstarfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert