Kannanir misstu af Flokki fólksins

Frammistaða Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, í leiðtogaumræðunum á RÚV …
Frammistaða Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, í leiðtogaumræðunum á RÚV á föstudagskvöldið kann að hafa skilað auknu fylgi á kjördag. Könnunarfyrirtæki voru nokkuð langt frá að spá rétt um fylgi flokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Gallup eru bæði ánægð með niðurstöður skoðanakannana sinna fyrir alþingiskosningarnar á laugardaginn. Síðustu kannanir birtust á föstudaginn og var Gallup með minnsta meðalfrávikið í þeim m.v úrslit kosninganna.

„Síðustu könnun okkar lauk 26. október og við erum ánægð með hversu nálægt við vorum úrslitunum þrátt fyrir að enn voru tveir dagar þar til gengið var til kosninga,“ segir Ólafur Elínarson, sviðsstjóri markaðsrannsókna hjá Gallup, í umfjöllun um árangur skoðanakannana  í Morgunblaðinu í dag.

„Þegar kemur að tveimur stærstu flokkunum erum við með frávik upp á 0,2%, en hjá Flokki fólksins var fylgið í síðustu skoðanakönnuninni 4% sem er 2,87% frá niðurstöðunni, sem var 6,88%. Þess má geta að Flokkur fólksins hafði mælst allt upp í 12% um miðjan september, og þegar boðað er til kosninga er hann með 10% fylgi svo mælingar gáfu til kynna að það væri stuðningur við flokkinn á þessu bili.“

Umræðuþátturinn skilaði fylgi

Hafsteinn Einarsson, verkefnastjóri hjá Félagsvísindastofnun, segir ekki mjög stórar skekkjur hjá þeim. „Nema kannski helst að við misstum af því að Flokkur fólksins nær þessari góðu kosningu,“ segir Hafsteinn. Spurður hvort góð frammistaða formanns flokksins í umræðuþætti formanna á RÚV kvöldið fyrir kosningar gæti hafa spilað þar inn í, segir Hafsteinn það hugsanlegt.

„Það var ákveðið samræmi á milli allra mælinga hjá könnunarfyrirtækjunum og þá held ég að það megi leiða sterk rök að því að umræðuþátturinn hafi skilað einhverju fylgi í lokin. Við skoðum alla liði núna eftirá til að sjá hvort okkur vantar einhvern ákveðinn hóp í úrtakið sem skýrir þessa skekkju en Flokkur fólksins höfðar til eldri borgara og það gæti skipt máli,“ segir Hafsteinn. Hjá Félagsvísindastofnun og Gallup er enginn hámarksaldur á þátttöku í könnunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert