Guðfinna ætlar ekki aftur í framboð

Guðfinna í félagsskap samflokksmanna sinna Þorsteins Sæmundssonar og Gunnars Braga …
Guðfinna í félagsskap samflokksmanna sinna Þorsteins Sæmundssonar og Gunnars Braga Sveinssonar. Ljósmynd/Miðflokkurinn

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, sem leiddi lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í alþingiskosningunum á laugardag, ætlar snúa sér alfarið að lögmennsku þegar hún hættir sem borgarfulltrúi í vor, en hún náði ekki kjöri á þing.

Hún segist ekki vera svekkt yfir því að hafa ekki komist inn á þing. „Ég get ekki sagt það. Ég er bara ekkert svekkt.“ Guðfinna segist hafa tekið þá ákvörðun fyrir nokkru að gefa ekki kost á sér í borgarstjórn aftur heldur snúa aftur í lögmennskuna.

„Það var auðvitað þannig að ég ákvað að gefa kost á mér því það fannst engin önnur kona. Þar af leiðandi var ég tilbúin í þetta. Við vissum að Reykjavík norður yrði erfitt kjördæmi fyrir okkur.“ Guðfinna segist því alls ekki hafa gert ráð fyrir því að ná kjöri. „Ég er bara mjög sátt persónulega og  rosalega glöð með árangur Miðflokksins, að honum skyldi takast að ná inn öllum þessum þingmönnum miðað við hvað þetta var skammur tími. Það var kannski ekki mikill áhugi á málefnum fyrir kosningar. Þær snérust um eitthvað allt annað.“

Guðfinna hafði áður gefið kost á sér í fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir alþingiskosningarnar, en dró framboðið til baka eftir að klofningur varð í flokknum. Skömmu síðar gekk hún til liðs við Miðflokkinn.

Guðfinna ætlar að klára kjörtímabilið sem borgafulltrúi fyrir Flugvallarvini og segja svo skilið við pólitíkina í bili. Hún var áður borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, en samkomulag er um það innan borgarmálahópsins að starfa saman út kjörtímabilið þrátt fyrir að helmingur hópsins sé genginn úr Framsóknarflokknum.

Hún er ákveðin í því að gefa ekki kost á sér á lista Miðflokksins fyrir sveitastjórnarkosningar í vor og segir ekkert liggja fyrir um það hvort hún taki að sér að sinna einhverjum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.

 „Ég er bara að setja mig í gírinn að byrja í lögmennsku aftur. Ég er sérhæfð í fasteignalögfræði og hef verið með lögmannsstofu sem heitir Fasteignamál lögmannsstofa frá árinu 2002, sem hefur verið á „hold,““segir Guðfinna og það leggst vel í hana að fara aftur í sitt gamla starf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert