Fulltrúar fjögurra flokka funda

Lilja yfirgaf húsið rétt rúmlega 12, en hún sat fund …
Lilja yfirgaf húsið rétt rúmlega 12, en hún sat fund flokkanna fjögurra um stjórnarmyndunarviðræður. mbl.is/Hari

Fulltrúar fjögurra flokka sem kannað hafa grundvöll fyrir formlegar stjórnarmyndunarviðræður sitja nú á fundi á skrifstofu Samfylkingarinnar við Austurstræti í Reykjavík þar sem óformlegar viðræður halda áfram um mögulegt stjórnarsamstarf.

Meðal þeirra sem sitja fundinn eru Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Smári McCarthy frá Pírötum, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Oddný G. Harðardóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmenn Samfylkingarinnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sat einnig fundinn en yfirgaf húsið  um klukkan hálftólf í fylgd Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns flokksins, sem var þó bara í húsinu fyrir tilviljun og sat fundinn ekki.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, yfirgefur fundinn. Með í för …
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, yfirgefur fundinn. Með í för er Ásmundur Einar Daðason, sem sat þó ekki fundinn. mbl.is/Hari

Skömmu síðar sáust yfirgefa húsið tveir þingmenn Viðreisnar, Þorsteinn Víglundsson og Jón Steindór Valdimarsson í fylgd með Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni Pírata. Þeir voru hins vegar að koma af öðrum fundi ótengdum stjórnarmyndunarviðræðum. „Við vorum að hittast nokkrir þingkarlar til að ræða hvað við getum gert til að bæta umræðu um jafnréttismál af hálfu karla,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is. „Stjórnarmyndunarviðræður bar aldrei á góma. Við hittumst nokkrir þingmenn til að ræða hvað karlar á þingi gætu lagt af mörkum til að styrkja jafnréttisumræðuna frekar.“

Hann segir Viðreisn ekkert hafa komið að viðræðum stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra og ekki hefur verið haft samband við flokkinn um að stíga inn í þær viðræður. „Mér finnst eðlilegt í þessum kringumstæðum að þessir flokkar svari því fyrst innbyrðis hvort það sé samstarfsgrundvöllur áður en umræða er tekin um hvort vilji sé til að útvíkka það eitthvað frekar. Þau hafa nálgast viðræðurnar þannig og það er eðlileg nálgun.“

Hann segist þó hafa heyrt, líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum, að það kynni að vera áhugi á því að styrkja þann meirihluta ef af honum yrði. „Það er þá eðlilegt að þessi kjarni svari því fyrst hvort það er samstarfsflötur eða ekki.“

Þingmenn Viðreisnar voru ekki á fundinum þar sem stjórnarmyndunarviðræður voru …
Þingmenn Viðreisnar voru ekki á fundinum þar sem stjórnarmyndunarviðræður voru ræddar. mbl.is/Hari

Þorsteinn segir Viðreisn ekki skorast undan ábyrgð þegar kemur að stjórnarmyndun, í hvaða átt sem hún er. Það verði einfaldlega að nálgast hana á grundvelli málefna. Aðspurður hvort aðkoma þeirra að áðurnefndu ríkisstjórnarsamstarfi gæti ekki strandað á áherslum flokksins í Evrópumálum, segir Þorsteinn: „Það yrði að koma í ljós. Það er ótímabært að tjá sig um einstök málefni. Það er alveg sama um hvaða stjórnarmynstur gæti verið um að ræða, í því samstarfi hljóta að felast málamiðlanir flokka almennt. Það hlýtur þá hver um sig að meta það út frá heildarmyndinni. Hvaða árangri er verið að ná í þeim málum sem mestu skipta. Auðvitað þurfa allir að færa einhverjar fórnir í því.“

Uppfært klukkan 12.15:

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, yfirgaf húsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert