Málin skýrast síðar í dag

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/​Hari

Væntanlega mun skýrast síðar í dag hvort rétt þyki að hefja formlega stjórnarmyndunarviðræður fjögurra flokka. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is. Auk VG er um að ræða Framsóknarflokkinn, Samfylkinguna og Pírata sem hafa samanlagt 32 þingmenn á bak við sig.

Flokkarnir fjórir hafa verið að ræða saman óformlega undanfarna daga til þess að kanna hvort forsendur séu fyrir því að hefja formlegar viðræður. Katrín sagði við fjölmiðla í gær að staðan myndi væntanlega skýrast í dag og þá hvort hún færi á fund Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, og óskaði eftir formlegu umboði til stjórnarmyndunar.

Fram hefur komið í fréttum að rætt hafi verið um að fá annaðhvort Flokk fólksins eða Viðreisn inn í mögulegt stjórnarsamstarf til þess að styrkja þingmeirihluta þess en aðkomu fleiri flokka væri um að ræða minnsta mögulega meirihluta á þingi. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur talað um að það væri full tæpt.

Stjórnarskráin ekki verið mikið rædd enn

Komið hefur fram að eitt af þeim málum sem ekki hafi verið lent sé stjórnarskrármálið. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir hins vegar við mbl.is að ekki hafi enn farið fram mikil umræða um málið í þeim óformlegu viðræðum sem átt hafi sér stað. Hún kannast því ekki við að stjórnarskrármálið hafi verið einhver ásteytingarsteinn.

„Þetta er bara eitt af þeim málum sem hafa verið rædd,“ segir Þórhildur. Spurð hvort Píratar gætu sætt sig við breytingar á núverandi stjórnarskrá í stað þess að skipta henni út fyrir nýja stjórnarskrá byggða á tillögum stjórnlagaráðs segir hún: „Þetta er bara allt til umræðu núna.“ Útgangspunktur Pírata sé hins vegar tillögur stjórnlagaráðs.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert