Funda heima hjá Sigurði Inga

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/​Hari

Fulltrúar fjögurra stjórnmálaflokka, sem stefna að því að mynda nýja ríkisstjórn, munu hittast á fyrsta formlega fundi stjórnarmyndunarviðræðnanna á heimili Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, á Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi, í dag.

Frétt mbl.is: Reyna að „skrúfa saman“ í sáttmála

Fundurinn hefst klukkan 13.00 og mæta á hann fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Samfylkingarinnar og Pírata auk Framsóknarflokksins. Fulltrúar flokkanna hafa ræðst óformlega við undanfarna daga. Samanlagt hafa flokkarnir 32 þingmenn.

Heilbrigðis-, mennta-, og samgöngumál verða helstu áherslumál fyrirhugaðrar ríkisstjórnar samkvæmt því sem Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði við fjölmiðla í gær eftir að hafa tekið við stjórnarmyndunarumboði frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.

Frétt mbl.is: „Uppbyggingarstjórn“ í farvatninu

Takist stjórnarmyndunin er búist við að Katrín verði næsti forsætisráðherra Íslands. Sigurður Ingi sagði í gær að samstaða væri um það að ríkisstjórnin yrði „uppbyggingarstjórn“ yrði af henni. Nefndi hann löggæslumálin til viðbótar við fyrrnefnda málaflokka.

Ekki er búist við að fleiri flokkar verði kallaðir að borðinu en vangaveltur voru um það hvort fyrirhugaður meirihluti, þar sem munar einum þingmanni, yrði hugsanlega styrktur með aðkomu annaðhvort Viðreisnar eða Flokks fólksins. Til þess hefur þó ekki komið.

Frétt mbl.is: Verður þetta minnihlutastjórn?

Þá er óvíst hvort fyrirhuguð ríkisstjórn verður formlega meirihlutastjórn eða minnihlutastjórn í ljósi þess að einn þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, hefur lýst því yfir að hann vilji ekki taka þátt í stjórnarmeirihluta sem hafi minnihluta atkvæða að baki sér.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert