„Boltinn er hjá formanni VG“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfðum of miklar áhyggjur af því að þessi tæpi meirihluti myndi ná því fram að búa til pólitískan, félagslegan og efnahagslegan stöðugleika,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is. 

Framsóknarflokkurinn sleit stjórnarmyndunarviðræðum í hádeginu en flokkurinn telur meiri­hlut­ann of naum­an til að tak­ast á við stór verk­efni sem fram und­an eru, meðal ann­ars kjaraviðræður. 

Hann segir ákall í landinu um pólitískan stöðugleika og að efnahagslegum stöðugleika sé viðhaldið. „Við stöndum frammi fyrir býsna stórum áskorunum, ekki síst varðandi kjarasamninga og önnur verkefni uppbyggingar,“ segir Sigurður.

Píratar hafa lýst því yfir að augljósi kosturinn í stöðunni sé að bjóða fleiri flokkum að borðinu svo meirihlutinn sé ekki svona tæpur. Sigurður segir það hafa verið rætt í ferlinu vegna þess að hann hafi allan tímann haft áhyggjur af þessum tæpa meirihluta. Niðurstaðan áður en formlegar viðræður hófust hafi verið að flækjustigið yrði of mikið ef fleiri flokkum yrði boðið í viðræðurnar.

„Við fórum í þessar viðræður, sem voru mjög fínar, og það eru ákveðin vonbrigði að þær gangi ekki eftir. Þær voru einlægar, lausnamiðaðar og allir lögðu sitt af mörkum. Það breytir því ekki að verkefnin fram undan eru af þeirri stærðagráðu að það þarf ríkisstjórn með breiðari skírskotun til að búa til pólitískan stöðugleika.

Fram kemur í frétt mbl.is að Framsóknarflokkurinn beri ekki traust til Pírata með svo naum­an meiri­hluta á bak við sig. Sigurður kannast ekki við það. „Ég hef hvergi látið hafa það eftir mér.

Hann segir næstu skref vera í höndum Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri-grænna. „Eins og Katrín upplýsti hefur hún látið forseta vita og hefur umboð hans til að leita annarra leiða í dag í það minnsta. Síðan taka menn stöðuna. Boltinn er hjá formanni Vinstri-grænna.

Sigurður segist ekki spenntur fyrir myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokki, Flokki fólksins og Miðflokknum. „Við höfum allan tímann sagt að við getum ekki útilokað eitt né neitt til að búa til starfhæfa ríkisstjórn. Á sama tíma hef ég lagt áherslu á að ríkisstjórn í landinu, til að búa til pólitískan stöðugleika, þurfi breiðari skírskotun. Ég get ekki séð að hún myndi svara því kalli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert