ESB-kosning ekki skilyrði

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Golli

Viðreisn mun ekki setja þjóðaratkvæðagreiðslu um frekari skref í átt að inngöngu í Evrópusambandið sem skilyrði fyrir mögulegri ríkisstjórnarþátttöku. Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, við Ríkisútvarpið í kvöld.

„Á þessu stigi tel ég rétt að flokkar setji ekki fram nein skilyrði. Ábyrgðin er að koma saman stjórn. Síðan er stóra myndin sú, hvort sem flokkar eru innan eða utan stjórnar, það eru nýju vinnubrögðin. Við þurfum að passa okkur á því að vera málefnaleg bæði í meirihluta sem minnihluta,“ sagði Þorgerður Katrín í viðtalinu.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hafði áður lýst því sama yfir fyrir helgi, að þjóðaratkvæði um Evrópusambandið væri ekki skilyrði, en þá stóðu enn yfir viðræður fjögurra flokka um myndun ríkisstjórnar frá miðju til vinstri sem slitið var í dag.

Viðreisn og Samfylkingin eru einu flokkarnir á þingi sem eru hlynntir inngöngu í Evrópusambandið.

Frétt mbl.is: Atkvæðagreiðsla um ESB ekki skilyrði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert