Þingmönnum fjölgar ekki í viðræðum

Gunnar Bragi telur rökrétt að Sigmundur Davíð eða Bjarni Benediktsson …
Gunnar Bragi telur rökrétt að Sigmundur Davíð eða Bjarni Benediktsson fái stjórnarmyndunarumboðið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, veit ekki til þess að haft hafi verið samband við formann flokksins í dag um hugsanlega aðkomu hans að myndun ríkisstjórnar.

Hann hefur ekki heyrt í Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni flokksins, í dag en sá síðarnefndi er á leiðinni að norðan til Reykjavíkur. „Það hefur ekki verið rætt við mig í dag, en menn hafa síðustu daga verið að tala saman og velta hlutum fyrir sér. Miðflokkurinn skorast ekki undan því að taka þátt í viðræðum ef til þess kemur,“ segir Gunnar Bragi í samtali við mbl.is.

Hann veit ekki til þess að Sigmundur Davíð og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi rætt meira saman síðan þeir töluðu saman í síma á miðvikudagskvöld, en ætla má að það samtal hafi aukið líkurnar á að flokkarnir tveir geti starfað saman.

Hver telurðu að verði næstu skref?

„Katrín sagðist ætla að nýta tímann til fimm til að skoða aðra möguleika. Að því loknu hlýtur forsetinn að ræða við formenn flokkanna um næstu skref. Ég tel þá eðlilegt að annaðhvort Sigmundur Davíð, formaður Miðflokksins og sigurvegari kosninganna, eða Bjarni Benediktsson fái umboðið sem formaður stærsta flokksins. Mér finnst liggja í augum uppi að það sé næsta skref.“

Telurðu að Bjarni leiti þá til Miðflokksins um samstarf?

„Ég held að hann hljóti nú að tala við alla til að kanna hvaða möguleikar eru í stöðunni. Ég geri ekki ráð fyrir öðru.“

Það kom Gunnari Braga kannski ekki á óvart að stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna fjögurra skyldi slitið en honum þykir þó skrýtið að samstarfið skuli hafa strandað á naumum meirihluta. „Það er svolítið skrýtið að þetta hafi strandað á naumum meirihluta. Það lá alltaf fyrir að meirihlutinn væri tæpur. Það fjölgar ekki þingmönnum að fara í viðræður, þannig að þetta er skrýtið, en þetta er ástæðan sem er gefin fyrir þessu og við trúum því að sjálfsögðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert