Katrín hitti Sigmund Davíð í gær

Katrín hefur átt í samtölum við flesta formenn flokkanna síðustu …
Katrín hefur átt í samtölum við flesta formenn flokkanna síðustu daga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hitti Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, í gærkvöldi. Frá þessu greindi hún í þættinum Harmageddon á X-inu í morgun. Aðspurð sagði hún Sigmund hafa verið mjög hressan.

Katrín sagðist jafnframt hafa átt samtölum við formenn flestra flokka frá því að hún skilaði stjórnarmyndunarumboðinu aftur til forseta Íslands á mánudag, eftir að slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum fjögurra fráfarandi stjórnarandstöðuflokka; Vinstri grænna, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Pírata.

Hún hefði verið í sambandi við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar. Þá sagðist Katrín eiga fund með þeim tveimur síðastnefndu á eftir.

„Þetta er ekki komið á þann stað, að mínu viti, að það sé neitt stjórnarmynstur í kortunum,“ sagði hún um stöðuna eftir óformlegar þreifingar síðustu daga.

Katrín sagði Sigmund hafa verið hressan þegar hún hitti hann …
Katrín sagði Sigmund hafa verið hressan þegar hún hitti hann í gær. mbl.is/​Hari

Hún benti á að engin augljós pólitísk lína hefði legið fyrir eftir kosningar, ekki frekar en í fyrra. Staðan núna sé þó frábrugðin þeirri sem var uppi þá.

„Það sem hefur breyst frá því í fyrra er að allir flokkar átta sig betur á því að þetta er staða þar sem þú getur ekki ætlast til þess að ná málefnalegri heildstæðri stjórn um vinstri eða hægri, það er alla vega mjög flókið eins og þetta lítur út núna.“

Aðspurð í þættinum hvort það væri ekki vonlaust að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki, hvort það yrði ekki samsuða sem gerði ekki neitt, sagði Katrín: „Ég held að allir átti sig á því að það er enginn að fara að fá sínar ýtrustu kröfur fram í neinu því samstarfi sem er uppi á borðum núna.“

Vilja í ríkisstjórn svo fremi sem viðunandi árangur náist

Mikið hefur verið talað um að í kortunum sé að Vinstri grænir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn reyni fyrir sér í næstu stjórnarmyndunarviðræðum, en Morgunblaðið greindi frá því í fyrradag að Sigurður Ingi hefði hvatt Katrínu til að hafa samband við Bjarna eftir viðræðuslitin á mánudag. Þá hefur mbl.is heimildir fyrir því að innan Sjálfstæðisflokksins þyki þetta samstarf fýsilegasti kosturinn í stöðunni. Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag, samkvæmt heimildum, að Katrín geri kröfu um að fá forsætisráðherrastólinn, ef verður af samstarfi við Sjálfstæðiflokkinn.

Spurð hvort það yrði nokkuð vinsælt í baklandi Vinstri grænna ef flokkurinn færi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum sagði Katrín: „Það eru mjög margir sem vilja að VG fari í ríkisstjórn. Ég hef sagt við mína félaga að ég vilji líka að við förum í ríkisstjórn, svo fremi að við náum árangri sem við teljum viðunandi og áhrifum sem við teljum viðunandi.“ Katrín segir að þess vegna hafi hún ekki útilokað samstarf við neinn flokk fyrir kosningar.

Katrín sagðist jafnframt vilja leiða næstu ríkisstjórn, og grínaðist í kjölfarið með að henni sýndist sem allir karlar á landinu vildu gera það líka. „Að sjálfsögðu erum við þar og ég hef talað fyrir því og ég hef nú bara fengið heilmikinn stuðning við þau sjónarmið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert