Viðreisnarfólk ekki samleið með Viðreisn?

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Hafi flokkurinn verið stofnaður um eitthvert málefni sneri það að þjóðaratkvæðagreiðslunni um framhald ESB-viðræðna. Nú boðar flokksformaðurinn að ekki verði staðið við það loforð bjóðist ráðherrastólar,“ segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á vefsíðu sína og vísar þar til Viðreisnar.

Tilefnið eru ummæli Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, um að flokkurinn muni ekki gera kröfu um þjóðaratkvæði um að sótt verði á nýjan leik um inngöngu í Evrópusambandið vegna mögulegrar ríkisstjórnarþátttöku. Björn segir ummælin merkileg í ljósi þess að Viðreisn hafi verið stofnuð í kringum þetta málefni.

Þannig hafi hópur fólks úr Sjálfstæðisflokknum stofnað Viðreisn vegna Evrópumálanna. Eftir þingkosningarnar 2013 hafi Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagt að ekki yrði haldið þjóðaratkvæði um Evrópumálin vegna „pólitísks ómöguleika“ enda báðir þáverandi ríkisstjórnarflokkar andvígir inngöngu í Evrópusambandið.

„Upphrópanir um svik kosningaloforða bar hátt á árunum 2013 til 2016 en ríkisstjórnin sem þá sat dró ESB-aðildarumsóknina til baka. Varð þetta meðal annars til þess að óánægðir ESB-sjálfstæðismenn stofnuðu Viðreisn, þeir ættu ekki samleið með þeim í flokki sem brytu kosningaloforð og efndu ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB.“

Björn spyr í ljósi forsögunnar hvort Viðreisnarfólk eigi nú samleið með Viðreisn eftir yfirlýsingar Þorgerðar Katrínar. „Ólíklegt er að þessi yfirlýsing flokksformannsins um hvarf frá meginstefnu flokksins breyti nokkru um aðdráttarafl hans við stjórnarmyndun.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert