Vilja breyta vinnubrögðum á Alþingi

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fyrir utan ráðherrabústaðinn í dag.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fyrir utan ráðherrabústaðinn í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að gangurinn í stjórnarmyndunarviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn sé ágætur.

„Þetta tekur allt sinn tíma. Það þarf að vanda sig, það eru mörg málefni undir. Við þekkjum það frá öðrum Evrópulöndum að þar tekur líka tíma að mynda ríkisstjórnir þannig að það þurfa allir að vera þolinmóðir,“ sagði hún fyrir fund formannanna í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Spurð hvort búið væri að ákveða að hún yrði forsætisráðherra sagði hún: „Þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið, þannig er það bara.“

Varðandi ágreiningsmáli sagði hún að fyrirfram hafi verið vitað hver þau séu. „Við erum bara að vinna í því hvernig er hægt að sjá viðunandi lausnir í því. Það er ekkert sem hefur komið á óvart í því.“

Hún bætti við: „Það sem allir áttuðu sig á eða hefðu átt að átta sig á fyrir þessar kosningar var að allir flokkar þyrftu að gera málamiðlanir. Við erum auðvitað mjög meðvituð um að það þarf að gera málamiðlanir í hvaða stjórnarsamstarfi sem er og skilaboð kosninganna eru vissulega blendin í þessum efnum líka. Það kallar á að allir flokkar séu meðvitaðir um þetta.“

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, formenn þeirra …
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, formenn þeirra þriggja flokka sem nú ræða ríkisstjórnarmyndun, hittust í ráðherrabústaðnum eftir hádegi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín sagði að til standi að taka meira tillit til stjórnarandstöðunnar á  Alþingi. „Ég held mér sé óhætt að segja að það er samstaða um það. Það verður að breyta vinnubrögðum á Alþingi og þar verða allir að leggja sitt af mörkum. Það er mjög mikilvægt að stjórn og stjórnarandstaða vinni betur saman.“

Hún sagði að það ætti að skýrast í vikulok hvort formennirnir telji að þeir geti myndað nýja stjórn.

Katrín sagðist ekki hafa hug á því að fjölga ráðherrum eða ráðuneytum. Einnig sagðist hún leggja mikla áherslu á að hlutföll kynjanna í ríkisstjórn verði sem jöfnust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert