„Mynda samsæri gegn kjósendum“

Sigmundur Davíð Gunnlausson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlausson, formaður Miðflokksins. mbl.is/​Hari

„Mér líst ekkert á þetta. Það er afleitt ef menn fara í stjórn á öðrum forsendum en út frá pólitík og framtíðarsýn. Þetta er svo sannarlega ekki stjórn sem byggir á tiltekinni pólitískri stefnu eða skýrri framtíðarsýn,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, en rætt var við hann í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Hann telur ólíklegt að stjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem nú er á teikniborðinu, komi til með að ráðast í stór og mikilvæg verkefni. Hann segir þessa stjórn verða myndaða á sama grunni og síðasta stjórn sem enginn hafi vitað um hvað var mynduð, annað en að ná meirihluta og skipta á milli sín stólum.

„Stjórnmál eiga að snúast um samanburð á ólíkum leiðum og ólíkum stefnum. Svo þarf það að hafa einhver áhrif þegar kjósendur velja eina stefnu umfram aðra, en þarna er einmitt verið að gera meira af því sama. Meira af því sem hefur verið vandi stjórnmálanna, að mínu mati, undanfarin ár. Stjórnmálamenn koma með einhverjar áherslur í kosningabaráttunni, en svo eftir kosningar þá mynda þeir það sem kalla mætti samsæri gegn kjósendum, um að ná einhverjum lægsta samnefnara og skipta á milli sín embættum í stað þess að berjast  fyrir þeirri stefnu sem er boðuð.“

Sigmundur viðurkennir þó að óhjákvæmilegt sé að gera málamiðlanir ef flokkar eigi að ná meirihluta. Hann segir málamiðlun þó illa nauðsyn hafi menn trú á því sem þeir eru að boða. Ætli menn að ná fram þeirri stefnu sem boðuð er, eða stefnubreytingum, þurfi að vinna með þeim sem eru helst tilbúnir að ná þeirri stefnubreytingu. „Hér er verið að fara þveröfuga leið; vinna með þeim sem voru kannski lengst í burtu frá viðkomandi og beinlínis gert að stefnu að vinna með sem eru lengst frá viðkomandi pólitískt séð í stað þess að vinna með þeim sem voru nær í stefnu og kannski tilbúnir að fylgja því eftir sem lofað var í kosningum.

Sigmundur segist ekki hafa orðið var við framtíðarsýn þeirrar ríkisstjórnar sem er í myndun. Hann bendir á að flokkarnir þrír hafi rekið ákveðnar stefnur í sínum málefnum í kosningabaráttunni en honum heyrist að ekki eigi að fylgja neinni þeirra eftir.

Hann segir að einmitt núna sé mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn og fylgja henni eftir. Nú séu tækifæri til að ráðast í stórar kerfisbreytingar. „Til dæmis varðandi fjármálakerfið. Þessi stjórn er ekki að fara að ráðast í þær breytingar. Hún er ekki að fara að nýta þessi tækifæri. Þetta er kerfisstjórn. Stjórn um óbreytt fyrirkomulag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert