„Betra að vanda sig í upphafi“

Sigurður Ingi Jóhannsson fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun.
Sigurður Ingi Jóhannsson fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun. mbl.is/​Hari

„Við erum að vanda okkur, þetta skiptir máli. Við ætlum að láta þetta standa út kjörtímabilið og þá er betra að vanda sig í upphafi,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, fyrir fund sinn með formönnum Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins í ráðherrabústaðnum í morgun.

„Við sjáum alveg til enda og það eru engin stórmál sem eru að trufla en það skiptir máli að fara vel ofan í hvað þarf að gera þannig að við göngum öll í takt frá fyrsta degi,“ sagði hann, spurður hvenær hann teldi að vinnunni við stjórnarmyndunina lyki.

Varðandi ágreiningsmál sagði hann að formennirnir væru að leita leiða til þess að fá sameiginlega sýn og binda fast saman hvernig þeir sjái hvað þurfi að gera.

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson í ráðherrabústaðnum …
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson í ráðherrabústaðnum í morgun. mbl.is/​Hari

Sigurður Ingi sagði fundi með aðilum vinnumarkaðarins og landlækni í síðustu viku hafa verið góða. „Þeir hafa hjálpað verulega til þess að fá frekari innsýn í verkefni og þar af leiðandi aðeins bætt í vinnuna sem við erum að vinna,“ sagði hann og nefndi einnig að formennirnir hefðu ekki rætt af alvöru um skiptingu ráðuneyta heldur hefðu þeir fyrst og fremst horft á málefnin.

Spurður hvort hann kalli saman miðstjórn Framsóknarflokksins til að staðfesta málefnasamning um miðja þessa viku sagði hann að það myndi skýrast í vikunni. Það myndi hann reyna að gera með tveggja daga fyrirvara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert