Þurfa að finna lendingu í mörgum málum

Katrín Jakobsdóttir fyrir fundinn í morgun.
Katrín Jakobsdóttir fyrir fundinn í morgun. mbl.is/​Hari

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sitja nú á fundi í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu þar sem þau reyna að mynda nýja ríkisstjórn. „Það liggur fyrir fyrirfram að hér eru þrír ólíkir flokkar og það eru mörg mál sem þarf að finna lendingu í. Við erum að vinna okkur í gegnum það,“ sagði Katrín fyrir fundinn.

„Við erum að vinna eins hratt og við getum en um leið erum við að gera þetta með öðrum hætti en gert hefur verið. Við erum að nýta tímann til þess líka að hitta eins og til dæmis aðila vinnumarkaðarins, aðra aðila í samfélaginu eins og landlækni. Við eigum eftir að hitta fleiri slíka, þannig að við erum að gefa okkur ákveðinn tíma til þess að vanda okkur þannig að þetta verður að taka þann tíma sem það þarf,“ bætti Katrín við.

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson í Ráðherrabústaðnum …
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson í Ráðherrabústaðnum í morgun. mbl.is/​Hari

Hún kvaðst hafa heyrt í forseta Íslands á laugardaginn og upplýst hann um stöðu mála og gang viðræðnanna.

Katrín segir að fundir með sérfræðingum í síðustu viku hafi verið mjög gagnlegir. Mikilvægt hafi verið að hefja samtal vegna vinnumarkaðarins sem sé „eitt stærsta verkefnið sem blasir við“.

Samtalið við landlækni hafi einnig verið gott. „Það snýst um að horfa á það hvernig við getum byggt upp í heilbrigðiskerfinu með sem skynsamlegustum hætti og með réttri forgangsröðun, þannig að þetta eru risamál sem blasa við,“ sagði hún en vildi ekkert tjá sig um hvort stjórnarmyndunarviðræðurnar kláruðust fyrir næstu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert