Flokkarnir nálgast lendingu

Katrín Jakobsdóttir í ráðherrabústaðnum.
Katrín Jakobsdóttir í ráðherrabústaðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við teljum að við séum að nálgast það að við getum lent þessu máli,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, í samtali við mbl.is. Formenn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sitja nú á fundi í ráðherrabústaðnum þar sem stjórnarmyndunarviðræður flokkanna halda áfram.

„Vinnan mun þó taka einhverja daga í viðbót og það er ekki síst vegna þess að við þurfum líka að vinna að fjárlagagerð samhliða því að skrifa málefnasamning,“ segir Katrín. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði við RÚV fyrr í dag að ríkisstjórn flokkanna þriggja gæti tekið til starfa í lok næstu viku.

„Við eigum eftir einhverja daga í þessa vinnu og við erum ekki búin að leysa öll mál,“ segir Katrín en hún telur að ef flokkarnir nái á annað borð að leysa öll mál þá ættu mál að skýrast eftir helgi. Þá væri hægt að boða flokksstofnanir flokkanna til fundar í næstu viku þar sem ákveðið yrði hvort fyrirhugað ríkisstjórnarsamstarf yrði samþykkt.

Katrín vill ekki segja til um hvaða mál séu erfiðari í viðræðunum en önnur. „Ég sé enga ástæðu til að tíunda það eitthvað. Það liggur fyrir að þetta eru ólíkir flokkar og allir vita hvernig þeir eru ólíkir,“ segir Katrín en hún segir þetta allt haldast í hendur.

„Við reynum að horfa á málin saman og reynum að leysa þau samhliða hvert öðru. Verði þessi stjórn mynduð verður hún um framtíðarsýn,“ segir Katrín áður en hún þurfti að drífa á sig á fund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert