Gagnrýnir „ósvífnar árásir“ á Katrínu

Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. mbl.is/Eggert

„Mikið væri gott ef fólk gæti litið meira í eigin barm og sett sömu kröfur um heilindi á sjálft sig og það gerir á aðra,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann gerir að umtalsefni málflutning forystufólks Samfylkingarinnar og Viðreisnar í garð Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, vegna stjórnarmyndunarviðræðna hennar við Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn.

„Allt er víst leyfilegt í pólitíkinni og það sýnir forystufólk Viðreisnar og Samfylkingar svo sannarlega þessa dagana. Einhvern veginn hélt ég að hin nýju boðuðu stjórnmál gengju út á annað en þær ósvífnu árásir sem þetta fólk stendur nú fyrir í garð Katrínar Jakobsdóttur. Þau keppast hvert við annað um að bera upp á Katrínu óheilindi, blekkingar og lygar, með því að ýja að – og segja nokkuð hreint út – því að Katrín hafi ekki verið í viðræðum stjórnarandstöðuflokkanna af heilindum, önnur stjórn hafi alltaf verið á teikniborðinu, jafnvel frá því fyrir kosningar, eins og formaður Viðreisnar leyfir sér að segja í dag.“

Kolbeinn segir fátt segja meira til um innviðina í fólki og flokkum en hvernig það og þeir takist á við það þegar hlutirnir fari ekki eftir þeirra höfði. „Og það er einstaklega sorglegt að sjá fólk, sem þess á milli mærir Katrínu í hástert þegar það hentar því, bera upp á hana þessar lygar um óheilindi.“ 

Skiptar skoðanir eru um skrif Kolbeins. Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, sakar Vinstri græn um viðkvæmni í athugasemd við færsluna. Pawel Bartoszek, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar, segir gagnrýnina koma úr hörðustu átt enda hafi VG eytt heilum þingvetri og kosningabaráttu í að spyrða andstæðinga sína við Sjálfstæðisflokkinn.

Margt fólk kaus ykkur og okkur vegna þess að það trúði því að Sjálfstæðisflokkurinn hreinlega þyrfti að fá frí frá valdi, vegna þess að þráseta hans við völdin í landinu, á þingi sem og í stjórnsýslunni, er orðin að sjálfstæðu vandamáli í íslenskri pólitík,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert