Hefðu viljað sjá meira á spilin

Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson áttu fund …
Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson áttu fund með formönnum flokkanna í dag. mbl.is/​Hari

„Það er matsatriði hvaða leið er farin. Stjórnarmyndunarflokkarnir vilja gera þetta eins og þeir lögðu til til að vinna tíma. Það þarf ekki að koma á óvart að stjórnarandstaðan hafi viljað sjá aðeins meira á spilin áður en farið var út í þessa umræðu jafnvel þó að það taki lengri tíma og mögulega þyrfti að vinna á Þorláksmessu,“ segir Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðingur eftir fund allra formanna flokkanna þar sem rætt var um fjármálafrumvarpið. 

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboð, sagði að nýtt fjárlagafrumvarp yrði lagt fram. Ekki yrði farin sú leið sem stjórnarmyndunarflokkarnir lögðu til að gamla fjárlagafrumvarpið yrði lagt fram með breytingum. 

„Tíminn er auðvitað orðinn knappur,“ segir Grétar en Alþingi þarf að samþykkja fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Hann bendir á að þar sem stjórnarandstöðuflokkarnir kjósa að fara þessa leið „hljóta þeir að vera tilbúnir að semja um það að klára á tilsettum tíma.“

Hefur stjórnarmyndun Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tekið langað tíma?

„Það er erfitt að segja til um það. Það fer eftir því hvað kemur upp úr pokanum hjá þeim. Ef þau hafa nýtt allan tímann til að ræða mál í þaula og ganga þannig frá hnútum að þetta haldi og haldi í stofnunum flokkanna og fá samþykki þar þá er þetta ekki glataður tími,“ segir Grétar. 

Í því samhengi bendir hann á að síðustu stjórnarmyndunarviðræður hafi tekið rúma tvo mánuði. „Ég vil ekki segja til um hvort þetta er langur eða stuttur tími fyrr en það kemur í ljós hvað þau hafa verið að gera,“ segir Grétar. 

Hann bendir á að það eigi einnig eftir að koma betur í ljós á miðvikudaginn þegar samstarfsyfirlýsing flokkanna þriggja verður borin undir flokksmenn. „Það hefur verið órói í VG en hvað það þýðir verður að koma í ljós. Enn sem komið er mörgum spurningum ósvarað,” segir Grétar.   

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði. Ljósmynd/Auðunn Níelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert