„Sáttur við niðurstöðuna“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er sáttur við niðurstöðuna af þessum viðræðum. Við eigum eftir að binda nokkra lausa enda og við erum í því í dag,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is en þingflokkur sjálfstæðismanna fundaði í dag um fyrirhugaðan stjórnarsáttmála.

Einnig ræddu Bjarni, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, með formönnum verðandi stjórnarandstöðu um störf Alþingis framundan og afgreiðslu fjárlaga vegna næsta árs.

Bjarni segir aðspurður að ágæt stemning hafi verið á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem hann kynnti fyrirhugaðan stjórnarsáttmála. Ekki var um atkvæðagreiðslu að ræða um stjórnarsáttmálann að sögn Bjarna. Flokksráðsfundur fer síðan fram á miðvikudaginn.

Verði stjórnarsáttmálinn samþykktur af stofnunum flokkanna þriggja má gera ráð fyrir að ríkisráðsfundur fari fram á fimmtudaginn og fyrsti fundur nýrrar ríkisstjórnar gæti þá mögulega farið fram á föstudaginn 1. desember að sögn Bjarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert