Hlakkar til að skoða sáttmálann

Stefán Pálsson sagnfræðingur
Stefán Pálsson sagnfræðingur mbl.is/Árni Sæberg

„Ég bara hlakka til þess að skoða sáttmálann með félögum mínum á morgun og leggja mat á hann. Ég hef auðvitað fylgst með málinu eins og aðrir og vona auðvitað að það komi góð útkoma út úr þess,“ segir Stefán Pálsson, sagnfræðingur og fulltrúi í flokksráði Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sem mun afgreiða stjórnarsáttmála fyrirhugaðrar ríkisstjórnar VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á fundi á morgun.

Frétt mbl.is: Breið stjórn og uppbygging – kunnuglegt?

„Þetta er svona frávik í okkar sögu. Nýsköpunarstjórnin kemur náttúrlega upp í hugann og má segja að ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens geri það líka að sumu leyti. En þegar talið var upp úr kössunum og í ljós kom að við værum með átta flokka á þingi þá var það jafnljóst að það væru talsverðar líkur á óhefðbundinni uppstillingu. Þetta eru ekki endilega óskabólfélagarnir en það voru ekki margir kostir heldur,“ segir Stefán um fyrirhugaða samsteypustjórn.

Sérstakar aðstæður hafi einnig verið fyrir hendi þegar nýsköpunarstjórnin 1944-1947, sem mynduð var af Sjálfstæðisflokknum, Alþýðuflokknum og Sósíalistaflokknum, hafi tekið við völdum. „Það hafði til dæmis verið utanþingsstjórn sem þótti mjög niðurlægjandi fyrir Alþingi að vera ekki með þingræðisstjórn við lýðveldisstofnunina. Þannig að það voru náttúrlega mjög óvenjulegar aðstæður,“ segir Stefán.

„Þetta verður fróðlegt. Þetta verður auðvitað erfiður biti fyrir marga og það innan þessara flokka allra. Það er margt sem hefur verið sagt og gert í gegnum tíðina. En maður verður líka var við dálítinn spenning hjá mörgum sem þykir þarna hugsað aðeins út fyrir boxið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert