Katrín fær stjórnarmyndunarumboðið

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, á Bessastöðum í dag.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, á Bessastöðum í dag. mbl.is/Eggert

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur veitt Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, umboð til myndunar nýrrar ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. 

Katrín og Guðni funduðu á Bessastöðum í morgun. Guðni greindi frá því að stjórnarsáttmáli flokkanna þriggja lægi að mestu fyrir og á morgun mundu stofnanir flokkanna greiða atkvæði um hann.

Guðni segir að Katrín verði forsætisráðherra nýrrar stjórnar njóti sáttmálinn stuðnings. 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á Bessastöðum í dag.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á Bessastöðum í dag. mbl.is/Eggert

„Um nokkurt skeið hafa Katrín, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, rætt um myndun ríkisstjórnar þessara flokka. Og nú liggur fyrir í megindráttum stjórnarsáttmáli slíkrar stjórnar,“ sagði Guðni.

„Á morgun munu stofnanir flokkanna þriggja greiða atkvæði um hann. Þá er um það samkomulag, að styðji flokksstofnanir fyrirhugað stjórnarsamstarf, verði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.“

Heillavænlegast að formennirnir leiddu viðræður án þess að einn réði för

Guðni benti á að það hefði yfirleitt verið svo um hnútana búið í slíkum viðræðum að einhver flokksformaður fengi umboð forseta til að stýra þeim. Það verklag væri þó alls ekki algilt. „Og í þetta sinn varð niðurstaðan sú að heillavænlegast væri að formennirnir þrír leiddu viðræður án þess að einn réði för,“ sagði Guðni og bætti við að venja og hefð kvæði á um það að við lyktir samninga hefði einn leiðtogi umboðið á hendi.

„Af þeim sökum fékk Katrín Jakobsdóttir umboðið hér í dag, væntanlegur forsætisráðherra nýrrar stjórnar ef að líkum lætur,“ sagði forsetinn.

Ný stjórn taki við á fimmtudaginn

Forsetinn var spurður hvort hann hefði trú á nýrri ríkisstjórn. „Já, ég hef trú á öllum ríkisstjórnum sem setið hafa þegar ég hef gegnt þessu embætti og bíð þess bara að flokksstofnanir greiði atkvæði og svo sjáum við hvað setur.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, …
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á Bessastöðum í dag. mbl.is/Eggert

Guðni vonast að til að stjórnarskipti geti orðið eins fljótt og auðið er, eða á fimmtudaginn.

Aðspurður segist Guðni vera bjartsýnn á að þetta ríkisstjórnarsamstarf haldi miðað við allt sem á undan er gengið í íslenskum stjórnmálum. „Þar fyrir utan er grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar skýr. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn, stendur í fyrstu grein stjórnarskrárinnar. Það er í verkahring stjórnmálamannanna að mynda hér ríkisstjórn, þeirra sem kjörnir eru til setu á Alþingi og þeir eru langt komnir með það verkefni núna, leiðtogar þriggja flokka,“ sagði forsetinn. 

„Nokkuð vel af sér vikið“

Spurður út í þann tíma sem það hafi tekið að mynda nýja ríkisstjórn að loknum kosningum sagði Guðni: „Í ljósi þess hve langan tíma það hefur tekið hingað til að mynda ríkisstjórnir, þá er þetta nú nokkuð vel af sér vikið verði af því að ný stjórn taki við völdum hér í landinu núna 30. nóvember. Það eru þá nokkrar vikur sem þetta hefur tekið og þykir ágætt í ljósi sögunnar.“

Spurður út í það hvenær nýtt þing myndi koma saman, þá sagðist Guðni ekki hafa upplýsingar um það. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert