Nýir ráðherrar taka við lyklum á morgun

mbl.is/KG

Nýir ráðherrar taka við ráðuneytum sínum í fyrramálið þegar formleg skipti fara fram. Þau hefjast klukkan níu í fyrramálið og lýkur á hádegi. Katrín Jakobsdóttir tekur fyrst við lyklum í forsætisráðuneytinu kl. 9 í fyrramálið þar sem Bjarni Benediktsson afhendir henni lyklavöldin. 

Hálftíma síðar eða kl. 9:30 þarf Bjarni að vera mættur í fjármálaráðuneytið til að taka við sínu ráðuneyti. Benedikt Jóhannesson afhendir honum lyklavöldin þar. Sigurður Ingi Jóhannsson verður mættur kl. 10 í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti þar sem Jón Gunnarsson tekur á móti honum. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir afhendir Kristjáni Þór Júlíussyni lyklana í landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu. Klukkan 11 verða ráðherraskipti í umhverfis- og auðlindaráðuneyti þegar Björt Ólafsdóttir afhendir Guðmundi Inga Guðbrandssyni lyklavöldin. 

Klukkan hálf tólf verður Kristján Þór mættur í menntamálaráðuneyti til að afhenda Lilju Dögg Alfreðsdóttur lyklana. Ásmundur Einar Daðason verður mættur á hádegi í  félags- og jafnréttismálaráðuneyti til að taka við af Þorsteini Víglundssyni. 

Svandís Svavarsdóttir tekur að endingu við heilbrigðisráðuneyti af Óttari Proppé klukkan rúmlega tólf á morgun.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert