Ekki á leið í pólitík

Frosti Sigurjónsson.
Frosti Sigurjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hvetur á vef sínum Frosta Sigurjónsson, fyrrverandi þingmann Framsóknarflokksins, til þess að taka þátt í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins. Frosti segir í samtali við mbl.is að hann  stefni ekki aftur í pólitík.

Frosti Sigurjónsson birti í gær grein á vef sínum um borgarlínu en það er heiti á nýju kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur fram að stofnkostnaður við borgarlínu er áætlaður 70-150 milljarðar.

Við forsendubrest getur kostnaður numið milljörðum á ári

„Þetta er ótrúlega stór fjárfesting sem mun hafa slæm áhrif á afkomu allra íbúa á svæðinu. Sé fjárhæðinni deilt á þau 85 þúsund heimili sem eru á svæðinu leggjast 0,8-1,8 mkr á hvert heimili.

Þá er ekki meðtalinn sá fórnarkostnaður sem felst í því að akreinar sem búið er að fjárfesta verulega í á liðnum árum verða færðar undir borgarlínu auk þess sem bílastæðum og grænum svæðum verður fórnað. Borgarlínan mun t.d. leggjast þvert yfir Keldnaholtið sem nú er grænt svæði. Ekki má heldur gleyma þeirri miklu röskun á umferð sem fylgir svona framkvæmdum við umferðaræðar og standa munu í 10-15 ár.

Það mun vera forsenda fyrir rekstri borgarlínu að áhugi almennings á að ferðast með almenningssamgöngum þrefaldist frá því sem nú er. Nú eru aðeins 4% ferða á höfuðborgarsvæðinu farnar með strætó en hlutfallið þarf að ná 12% svo dæmið gangi upp. Ef þessi forsenda bregst gæti rekstrartap borgarlínu numið milljörðum árlega.

Það virðist því sem borgarlínan sé einstaklega óhagkvæm og áhættusöm framkvæmd og það mætti með minni útgjöldum og margvíslegum hætti ná fram mun meiri árangri í að bæta samgöngur á svæðinu,“ skrifar Frosti meðal annars á vef sínum en greinina er hægt að lesa í heild hér.

Vilja að borgarlína verði kosningamál

Björn Bjarnason fjallar um grein Frosta á sínum vef og segir að óhjákvæmilega verði tekist á um ólík sjónarmið vegna borgarlínu í komandi sveitarstjórnarkosningum.

„Frosti reifar skoðun sem á mikið erindi inn í umræðurnar. Hann ætti að bjóða sig fram í leiðtogakjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík og láta reyna á stuðning þeirra sem þar kjósa við sjónarmið sitt,“ segir meðal annars í grein Björns.

Frosti tekur undir með Birni um að borgarlína eigi að verða kosningamál fyrir komandi borgarstjórnarkosningar en í samtali við mbl.is segist hann ekki vera á leið í stjórnmál að nýju. 

Þessi grein er ekki leið til þess að fara út í stjórnmál en hún er ákall borgara um að einhver geri eitthvað, segir Frosti og bætir við að hann sé búinn að prófa pólitíkina og hún sé ekki mjög skemmtileg. 

„Það var gaman að prófa þetta en ég ætla ekki að gera þetta að ævistarfi,“ segir Frosti spurður út í hvort hann ætli að taka áskorun Björns. 

Hann segist svo sannarlega vonast til þess að gott fólk gefi kost á sér í komandi kosningum sem er tilbúið til að taka annan vinkil á þetta mál. Sama hvaða flokkur eigi í hlut. 

Ég vildi koma þessu að í aðdraganda kosninga í þeirri von að kjósendur fái að tjá sig um þetta. Líka að frambjóðendur gefi upp afstöðu sína til þessa máls,“ segir Frosti enda sé um risastórt mál að ræða.

Í grein Frosta kemur meðal annars fram að það sé sáralítil eftirspurn eftir þeirri tegund flutningsgetu sem borgarlínan bjóði.

„Það er lítið gagn í því að hálftómir borgarlínuvagnar hringli um leiðarkerfið. Hins vegar er öruggt að sú tegund flutningsgetu sem nú er mjög eftirsótt mun skerðast verulega þegar akreinar sem nú nýtast fólksbílum verða helgaðar borgarlínu. Borgarlínan mun því auka umferðarteppu á álagstímum en ekki draga úr henni.

Í niðurlagsorðum Screening Report danska ráðgjafafyrirtækisins COWI um Borgarlínu er staðfest sú skoðun að eftirspurn eftir Borgarlínu muni ekki vera nægileg. Því þurfi að grípa til sérstakra aðgerða til að efla eftirspurn,“ segir enn fremur í grein Frosta sem var þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavík norður 2013–2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert